Hvunndagsgersemarnar í Albertshúsi

Haukur í stofunni í Albertshúsi, með mandólínið hans Jóns

Albertshús á Ísafirði á stað í hjörtum margra. Húsið, sem stendur við Sundstræti 33 var byggt í kringum 1890 af hjónunum Alberti Jónssyni og Guðnýju Magnúsdóttur, sem bjuggu þar til æviloka. Þau eignuðust ellefu börn, sem bjuggu um mislangan tíma í foreldrahúsum. Þeirra lengst bjó þar Herdís Albertsdóttir eða Dísa á Bökkunum líkt og hún var gjarnan kölluð, sem fæddist í húsinu og bjó þar í rétt tæp hundrað ár. Lengi vel bjó þar bróðir Dísu, Jón og bjó hún þá í herbergi á efri hæð hússins, en tekur við því öllu að honum látnum árið 1959.

Húsið er ekki stórt í fermetrum talið, þar var þó iðulega mikið líf og gestkvæmt hjá Dísu sem var höfðingi heim að sækja, þó ekki hafi peningar í stórum stíl flækst mikið fyrir henni á lífsleiðinni. Dísa lést í hárri elli árið 2011, þá 103 ára gömul og hafði hún þá verið um fjögurra ára skeið á öldrunardeild Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði. Ekki mátti minnast á það við Dísu að flytja á elliheimili og svaraði hún því við að hún nennti ómögulega að hanga með öllum gamlingjunum þar, þó blessaðir „gamlingjarnir“ sem hún svo nefndi hafi sennilega flestir verið yngri en hún.

Lífið sem hús fóstrar

Afkomendur Dísu eru nú um fjörtíu talsins. Herdís og heitmaður hennar, Þorvaldur Ragnar Hammer, sem lést einungis tvítugur að aldri eignuðust eina dóttur Guðnýju Albertu Hammer, sem eignaðist fimm börn. Þar á meðal dótturina Kristjönu Sigurðardóttur, Kiddýju, sem ólst upp hjá ömmu sinni. Kiddý er síðan amma Hauks Sigurðssonar (Búbbasonar), sem nú hefur tekið við keflinu sem húsráðandi í Albertshúsi ásamt Vaidu Bražiūnaitė eiginkonu sinni. Þau eiga soninn Kára Vakaris, svo nú má segja að húsið litla sé að fóstra sjötta ættlið.

Þegar skyggnst er á bak við tjöldin á það líf sem gömul hús hafa fóstrað er auðvelt að heillast,

sögur af fólki, sögur af atburðum og í föstu formi hlutirnir sem vitna um liðna tíma. Í litla húsinu á Bökkunum hafa til að mynda fæðst 26 börn! Og svo er það blessað fólkið. Dísu muna flestir heimamenn eftir, enda hún nálægt okkur í tíma og persóna sem sannarlega setti svip sinn á bæinn. Einhverjir muna líka eftir Jóni bróður hennar, sem var með rafsmíðaverkstæði í skúrnum sem er áfastur húsinu. Jón lést eftir slys sem hann varð fyrir er hann vann við ratsjárstöðina á Straumnesfjalli. Haukur segir að við grúsk sitt í Albertshúsi hafi komið sér skemmtilega á óvart hversu margt þar vitnar um líf Jóns sem hann segir hafa verið mikinn gleðimann, hlutir eins og mandólín og fiðla hafa þar til að mynda dúkkað upp. Tilkynning um andlát Jóns sem birtist í Baldri, dregur upp skemmtilega mynd: „Jón var prýðilega greindur maður, listfengur og ágætlega sjálfmenntaður einkum í öllu, sem tækni viðkom. Hann naut almennra vinsælda.“

Haukur, líkt og margir afkomendur Dísu var

heimagangur hjá „löngu“ líkt og hún var gjarnan kölluð af langömmu börnunum og ósjaldan fór hann til hennar í hádeginu þar sem hún bauð upp á heimalagaðan hádegisverð sem afkomendurnir kunnu sannarlega að meta.

„Það var alltaf gott að hafa fastan punkt í hádeginu. Þessi hefð var held ég góð fyrir alla. Langa hafði einhvern tilgang innan fjölskyldunnar og ég fékk alltaf gott að borða. Ég held að fólk verði fyrst gamalt þegar það hættir að gera gagn.“ Segir Haukur er hann minnist hádegisverðarhefðarinnar. Dísa var nokkuð föst í hefðum við matseldina. Á mánudögum var boðið upp á soðna ýsu, á miðvikudögum var kjötsúpa og grjónagrautur og brauð á föstudögum. Á þriðjudögum og fimmtudögum var eitthvað óvænt á boðstólum.

Í endurnýjun lífdaga

Albertshús er hokið af reynslu, bókstaflega og hefur það látið á sjá, líkt og vill henda. Þau Haukur og Vaida hafa upp á síðkastið verið að taka þar til hendinni og er það ætlun þeirra að gera húsið aftur að fjölskylduhúsi, en ekki hefur ve

rið föst búseta í húsinu frá því er Dísa flutti úr því árið 2006. Þau eru mörg handtökin sem þegar hafa verið reidd fram og verða þau fjölmörg í viðbót áður en framkvæmdum lýkur og ætla þau að gefa sér góðan tíma í verkið.

Á Fésbókarsíðu Albertshúss má fylgjast með því sem verið er að vinna og sjá myndir af dýrðlegum, hvunndagsgersemum sem leynast af því er virðist í hverjum krók og kima. Í þeim efnum má þó eflaust segja að það sem kann að teljast rusl í augum eins, er fjársjóður í augum þess næsta. Sumt er nokkuð ófrávíkjanlega rusl, líkt og hin fjölmörgu lög af gólfdúkum sem eru á gólfum hússins, fúnar spýtur og ryðgað járn sem fær að missa sín að mestu.

Svo er það innvolsið og þá sér í lagi hinir smáu hlutir, sem varpa ljósi á lífið í armæðu og undrum hversdagsins og hinar hátíðlegu stundir ævinnar. Þar er að finna drasl-skúffuna sem fyrirfinnst á flestum heimilum, gömul sendibréf og jólakort, dagbækur og allra handa hluti sem í eina tíð hafa verið nytsamlegir, en hafa í áranna rás ofan í skúffu tapað gildi sínu. Haukur og Vaida hafa varið miklum tíma upp á síðkastið í að fara yfir „milljón litla kassa fulla af smáhlutum“ líkt og Haukur orðar það. Af öllu því dóti sem þar hefur komið í ljós, hlýtur að teljast með því sérstakara gamall eldspýtustokkur sem í var að finna stóra uppþornaða bjöllu sem Dísa fann eitt sinn í bananakassa.

Einhversstaðar stendur að hálfnað sé verk þá hafið er og kannski þau hjónakornin hafi þá setningu að leiðarljósi í því víðfeðma verki sem þeirra bíður, áður en þau í vonandi ekki of fjarlægri framtíð flytja inn í Albertshús og gera það að fjölskylduhúsi að nýju.

annska@bb.is

DEILA