Kveðja frá fráfarandi sveitarstjóra í Strandabyggð

Andrea Kristín Jónsdóttir.

Á Strandabyggð.is má lesa þessa fallegu kveðju frá Andreu Kristínu Jónsdóttur, fráfarandi sveitarstjóra Strandabyggðar: „Runninn er upp síðasti vinnudagur minn hjá sveitarfélaginu Strandabyggð. Þótt liðin séu 6 ár frá því ég renndi hér í bæinn í atvinnuviðtal fyrir þetta ótrúlega spennandi starf, þá finnst mér eins og þetta hafi bara verið í síðustu viku. Tíminn hefur þotið áfram.

Á þessum tíma hef ég fengið að starfa með tveimur sveitarstjórnum sem skipaðar hafa verið úrvals fólki. Ég hef fengið að starfa með nefndarfólki hinna ýmsu nefnda sveitarfélagsins, ég hef fengið að sinna og taka þátt í samstarfi á Vestfjarðavísu og landsvísu, meira að segja á Evrópuvísu. Samstarfsfólk mitt hér hjá sveitarfélaginu er allt úrvalsfólk sem gott er að starfa með og íbúar Strandabyggðar eru gott, lífsglatt og skemmtilegt fólk sem bæði gaman og gott er að eiga samskipti við. Ég hef notið þess að taka þátt í lífinu hérna, vera í Kvennakórnun Norðurljósum, sækja leiksýningar hjá Leikfélagi Hólmavíkur sem á í svo skemmtilegu og góðu samstarfi við grunnskólann, Góan og Þorrinn sem eru ómissandi skemmtanir og meira að segja verið í einni Þorranefndinni. Allar gönguferðirnar með Gunnu fótalausu, smalamennskur … ég hef nú ekki verið mjög liðtæk á sjó en labba allar fjörur, hef farið í eina hvalaskoðunarferð og fylgist grannt með bátunum út um gluggann minn.

Það sem er mér efst í huga núna á þessum tímamótum er þakklæti. Ég hef gert það að leik undanfarin ár þar sem ég labba í fjörum að tína upp græn glerbrot. Í hvert sinn sem ég tek upp eitt glerbrot þá þakka ég fyrir eitthvað gott í hvert sinn. Ég þakka fyrir börnin mín og barnabörn, manninn minn og fjölskyldu. Ég þakka fyrir vini mína, samstarfsfólk, nágranna, sveitunga og þá sem ég rekst á hvar sem ég fer. Ég þakka fyrir fegurðina allt um kring. Ég þakka fyrir það smáa og fyrir það stóra. Ég þakka fyrir Strandagbyggð. Ég þakka fyrir ykkur öll. Núna get ég líka þakkað fyrir öll þakkar(gler)brotin mín og af þeim á ég helling.

Ég þakka ykkur öllum fyrir þennan góða tíma sem ég hef átt með ykkur hér í Strandabyggð og ég óska ykkur öllum farsældar og gæfu í bjartri framtíð.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA