Það er margt spennandi að gerast hjá Héraðssambandinu Hrafna-Flóka (HHF) á sunnanverðum Vestfjörðum. Páll Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri sambandsins segir að stór hópur krakka æfi hjá HHF og að mikil gróska sé á svæðinu.
Páll sagði í samtali við BB að vel hafi gengið á svokölluðu Samvest móti sem fram fór nýlega í Borgarnesi. „Við höldum Samvest mót einu sinni ári. Þetta mót er samstarf milli sjö héraðssambanda á Vesturlandi og Vestfjörðum. Það eru um 150 keppendur og við vorum með 24 frá okkur í HHF. Mótið gekk vel þó að rigningin hafi hangið yfir okkur allan tímann. Veitum viðurkenningu fyrir þáttöku og er þetta gert til að efla samstarfið og efla frjálsar íþróttir á þessu svæði.“
Páll segir að milli 30 og 40 krakka æfi frjálsar íþróttir hjá HHF og framundan sé spennandi ferð til Svíþjóðar. „Við erum að fara á Gautaborgarleikanna núna um mánaðarmótin júní og júlí. Þetta er sennilega stærsta frjálsíþróttamót fyrir börn og unglina á Norðurlöndum þannig að þetta er stórt svið fyrir krakkana.“
Krakkarnir búnir að vera duglegir í fjáröflun og foreldrar þeirra hafa tekið virkan þátt í þeirri vinnu í allan vetur að sögn Páls. „Við höfum ákveðið að fara annað hvort ár út, svona svo við séum ekki stanslaust í fjáröflun. Við förum alltaf þegar Ísland er annað hvort á EM eða HM!“
Aron Ingi
aron@bb.is