Fyrsti sveitarstjórnarfundurinn hjá nýrri sveitarstjórn í Strandabyggð var haldinn í gær, 12. júní 2018. Jón Gísli Jónsson, fráfarandi oddviti Strandabyggðar setti fundinn en auk hans voru þar Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Valdimarsson, Guðfinna Lára Hávarðardóttir og Aðalbjörg Signý Sigurvaldadóttir. Dagskráin var margþætt en fyrsta málið snérist um kosningu oddvita. Jón Gísli, sem verið hefur oddviti síðastliðin átta ár, lagði til að farið yrði eftir atkvæðafjölda í kosningunum og hann yrði kosinn oddviti þar hann fékk flest atkvæði. Ekki voru allir á eitt sáttir með það og kosið var um málið. Atkvæði féllu þannig að Ingibjörg Benediktsdóttir var kosin oddviti fram yfir Jón Gísla með þremur atkvæðum gegn tveimur. Ingibjörg er því oddviti Strandabyggðar næstu fjögur árin og tók við stjórn fundarins.
En af hverju sóttist hún eftir embætti oddvita? “Ég bauð mig fram og óskaði eftir þessu sæti því ég hef alltaf haft mikinn áhuga á byggðamálum,” svaraði Ingibjörg í samtali við BB. “Ég er í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu og hef alltaf lagt áherslu á byggðaþróun, en þess utan langar mig að takast á við þessa þróun sem hefur verið hér í Strandabyggð undanfarin ár, því hún er ekki góð. Ég held til dæmis að það hafi vantað að leggja meiri áherslu á Strandabyggð á opinberum vettvangi og við þurfum að tala meira út á við.”
“Ég var oddviti míns lista fyrir sveitarstjórnarkosningar fyrir fjórum árum og sagði þá að ég væri tilbúin að takast á við embætti oddvita, eins og ég er núna. Við vildum fá fráfarandi oddvita sem varaoddvita en hann bauð sig ekki fram svo úr varð að Eiríkur Valdimarsson var skipaður í það embætti vegna reynslu sinnar úr sveitarstjórnarmálum. En við ætlum að vinna saman sem ein heild og móta okkur stefnu sem sveitarstjórn. Við ætlum að reyna að vinna vel saman og leggjum áherslu á atvinnumál, atvinnumálastefnu og byggðaþróunarvandann.“
„Við höfum unnið mikið í því seinustu árin að fá samfélagið með okkur og höldum áfram með þau skref. Að allir komi að borðinu. Svo höldum við líka auðvitað áfram að vinna með hitaveitumálin og lagningu ljósleiðara og annað sem verið hefur í deiglunni,” segir Ingibjörg.
Nýja sveitarstjórn kaus svo í nefndir og ráð og voru allir sammála um mannavalið þar. Guðfinna Lára Hávarðardóttir verður formaður í Atvinnu- dreifbýlis- og hafnarnefnd. Eiríkur Valdimarsson formaður í Umhverfis- og skipulagsnefnd. Aðalbjörg Sigurvaldadóttir formaður í Tómstunda- íþrótta- og menningarnefnd. Jón Gísli Jónsson formaður í Velferðarnefnd og Ingibjörg Benediktsdóttir formaður Fræðslunefndar. Aðra nefndarskipan er hægt að sjá á heimasíðu Strandabyggðar.
Einnig var samþykkt á fundinum að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga með höfuðstól allt að 30 milljónum króna. Útsvarstekjur sveitarfélagsins og framlög frá Jöfnunarsjóði eru til tryggingar láninu sem á að taka til að fjármagna kaup á slökkvibíl, fjárréttir, endurbætur við grunnskóla og íþróttahús, hönnun á götum og opnum svæðum og svo lagningu ljósleiðara.
Hagvangur mun sjá um ráðningarferli sveitarstjóra Strandabyggðar og Ingibjörg sagði að væntanlega myndi auglýsing þess efnis birtast um næstu helgi.
Sæbjörg
sfg@bb.is