MAST úrskurðar að fyrirframgreiðsla arfs sé ekki ígildi kaupsamnings

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið staðfesti nýlega í tveimur samhljóða úrskurðum synjun Matvælastofnunar á að veita tveimur umsækjendum svonefndan nýliðunarstuðning í landbúnaði. Þetta kemur fram á vefsíðu Matvælastofnunnar.

Eitt af markmiðum búnaðarlaga er að auðvelda nýliðun þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi framleiðenda. Nánar er fjallað um þetta í reglugerð um almennan stuðning við landbúnað. Eitt af skilyrðunum varðandi nýja kaupendur er að nýliðarnir séu að kaupa búrekstur eða hlut í búrekstri í fyrsta skipti.

Bæði kærumálin snúa að sama búrekstrinum. Þar hafði árið 2016 verið keyptur viðbótarkvóti í mjólk og vélakostur hafði verið endurbættur. Kærendur höfðu á árinu 2017 hvor um sig eignast 33% af búrekstrinum með fyrirframgreiðslu arfs eða samtals 66%. Skv. gildandi reglugerð er það hins vegar skilyrði nýliðunarstuðnings að fyrir liggi kaupsamningur vegna fjárfestingar sem óskað er stuðnings við. Kærendur gátu ekki sýnt fram á að þeir hefðu lagt fjármuni til þeirrar fjárfestingar sem óskað var stuðnings við.

Í samræmi við lög og reglugerðir mat Matvælastofnun það svo að fyrirframgreiðsla arfs væri ekki ígildi kaupsamnings. Nýliðunarstuðningur fæst því ekki greiddur þegar nýliðar eignast bú eða hlut í búi við arftöku. Ráðuneytið staðfesti þessa niðurstöðu stofnunarinnar í úrskurðum sínum.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA