Mikil ánægja með körfuboltabúðir Vestra

Barna- og unglingastarfið í Vestra er mjög öflugt. Mynd: Vestri

Körfuboltabúðir Vestra kláruðust á laugardagskvöldið með skemmtilegri kvöldvöku og afhendingu verðlauna og viðurkenninga. Á kvöldvökunni komu saman allir iðkendur búðanna, þjálfarar og þeir foreldrar sem voru á staðnum. Það var mikið um að vera og byrjaði kvöldið á skemmtiatriði sem ekki var af verri gerðinni, heldur kom hann Emmsjé Gauti fram fyrir krakkana og rappaði þrjú skemmtileg lög. Hann fékk einnig smá körfuboltakennslu, en það má segja að hann hafi valið réttan feril að fylgja rappinu, frekar en körfuboltanum.

Dagskráin var löng, en keppt var í víta og þriggja stiga keppni milli iðkenda úr öllum tíu æfingarhópunum. Einnig voru spilaðir úrslitaleikir liða sem höfðu verið að spila saman öll kvöld í búðunum. Hugsanlega má vera að keppnisskapið hafi verið í fyrirrúmi en engu að síður var ekki langt í gleðina. Loks voru veittar viðurkenningar fyrir mestu framfarir, leikmenn til fyrirmyndar og fleiri verðlaun fyrir hvern hóp. Einnig voru gefin verðlaun fyrir bestu frammistöðuna meðal stúlkna og drengja og voru það Perla María Karlsdóttir og heimamaðurinn Egill Fjölnisson sem hlutu þær viðurkenningar í ár.

Búðirnar heppnuðust frábærlega og er það stórum hluta að þakka sjálfboðastarfi, þjálfurum, skipuleggjendum og foreldrum. Það er auðvitað samspil margra þátta sem gera þetta mögulegt. En að sjálfsögðu gera körfuboltabúðirnar líka mikið fyrir samfélagið.
BB heyrði í Hannesi Sigurbirni Jónssyni formanni körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ). En hann kom og kíkti á búðirnar í ár, en hann hafði fleiri en eina ástæðu til þess þar sem sonur hans tók þátt í körfuboltabúðunum. Hannes sagði að búðirnar væru frábærar og stórkostlegt framlag til körfuboltahreyfingarinnar á Íslandi. Vestfirðingar er að bjóða uppá svakalega góða möguleika fyrir körfuboltaiðkendur á öllum aldri. Hannes segist sjá gríðarlegan framvöxt á búðunum en hann hefur þrisvar sinnum komið áður. Hann segir framfarirnar vera mestar í rekstrinum á þessum stóru og umfangsmiklu búðum.

Hannes ræddi töluvert við erlenda þjálfara búðanna og um það hvernig Vestfirsku körfuboltabúðirnar komi út í samanburði við erlendar körfuboltabúðir, svo sem annars staðar í Evrópu og Bandaríkjunum. „Búðirnar hér fyrir vestan eru alls ekkert slakari en erlendis, þar sem skipulag og vinnsla í búðunum er sambærilegt með öðrum ytra. Vestrafólk á skilið þúsund þakkir fyrir framlagið og mikla vinnu. En Ísfirðingarnir sem standa í þessu ár eftir ár eru auðvitað orðnir vel sjóaðir í þessum aðgerðum. Það er frábært að sjá hversu fjölbreytt þjálfaraflóran er, þar sem boðið er upp á innsýn inn í hin ýmsu mismunandi menningarhorn heimsins, körfuboltalega séð. Einnig er mikilvægt að minnast á það að íslensku þjálfararnir gefa þeim erlendu ekkert eftir,“ segir Hannes og bætti við að þetta væri góð og lærdómsrík reynsla fyrir íslenska þjálfara, reynda sem óreynda.

Hannes er virkilega ánægður með allar körfuboltabúðir á landinu og segir að bara í þessari nýliðnu viku hafi um 350 krakkar verið í körfuboltabúðum um allt land. En þar af um 200 hérna fyrir vestan. Hann vill meina að svona búðir stuðli að jákvæðri framþróun í körfuboltanum og að körfubolti sé í rauninni orðinn að heilsársíþrótt vegna magnsins og allra möguleikanna sem krakkarnir hafa varðandi það að æfa körfubolta markvisst á sumrin.“

Ingimar Aron

DEILA