Söngkonan María Magnúsdóttir, betur þekkt sem MIMRA, mun halda tvenna tónleika ásamt hljómsveit á Vestfjörðum á næstunni. Annars vegar verða tónleikar á Café Riis á Hólmavík þann 16. júní og hinsvegar tónleikar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og er miðaverð 2.000 krónur og er hægt að kaupa miða á tix.is eða við hurð.
Tónleikarnir eru liður í tónleikaferðalagi MIMRU í sumar sem er kynning á nýútkominni plötu hennar, Sinking Island. Tónlist MIMRU er í alternative folk stíl, orchestral pop á stórum skala en samt sem áður einlæg, vönduð og lætur engann ósnortinn. Hljómsveitina skipa þrjár öflugar tónlistarkonur. María Magnúsdóttir er söngkona, lagahöfundur og hljómborðsleikari, Sylvía Hlynsdóttir spilar á trompet og synta og hefur hún spilað með Björk og Jónas Sig. Svo er það Jara Holdert sem spilar á gítar og syngur en hún er stórkostlegt söngvaskáld frá Hollandi og mun hita upp fyrir hljómsveitina á tónleikum þeirra. Tónlist MIMRU er fullkomin fyrir aðdáendur Feist, Bat for Lashes og Laura Mvula og tónlist Jöru ber keim af söngvaskáldum 7. áratugarins; Bob Dylan og Joni Mitchell.
Aron Ingi
aron@bb.is