Það verður mikið um dýrðir á Flateyri laugardaginn 2. júní þegar Björgunarsveitin Sæbjörg heldur upp á 50 ára afmæli sitt. Um daginn verður hefðbundin sjómannadagsdagskrá, með flekahlaupi og húllumhæi en um kvöldið verður borin fram dýrindis fiskisúpa í félagsheimilinu á Flateyri, en miða á matinn og skemmtunina um kvöldið er hægt að panta hjá formanni Björgunarsveitarinnar, honum Magnúsi Einari Magnússyni. Eftir matinn verður boðið upp á happdrætti og skemmtiatriði, þar á meðal mun Hugleikur Dagsson stíga á stokk. Þar á eftir er ball með hljómsveitinni F1 Rauður og hefst það klukkan 23:30. Einn orðheppnasti Flateyringur sögunnar mun stýra herlegheitunum en það er hann Jón Svanberg. Á sunnudeginum 3. júní, sjálfum Sjómannadeginum, verður að sjálfsögðu samsigling báta frá Flateyri eins og verið hefur undanfarin ár.
Sæbjörg
sabjorg@gmail.com