Óformlegar viðræður eru hafnar milli flokkanna hjá Ísafjarðarbæ, en enn sem komið er hefur ekkert verið ákveðið. Þetta kemur fram í samtali við oddvita Í-listans, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Fram kemur að málin fari þó að skýrast fljótlega.
Marzellíus Sveinbjörnsson, oddviti Framsóknarflokksins, segir að úrslit kosninganna hafi verið ljúf fyrir sig og sína. „Það er ekki ennþá komið spennufall. Það hefur ekki gefist tími til þess. Nú þarf maður bara að vanda sig með sínu fólki. Við erum búin að vera að þreifa fyrir okkur í báðar áttir og áttum samtöl í gær við báða flokka. Ekkert hefur þó verið ákveðið. Þetta er ennþá bara í mínum höndum og minna manna. Báðir flokkar eru góðir kostir að mínu mati, svo það verður erfitt að velja, en við ætlum að reyna að klára þetta í dag eða á morgun.“
Arna Lára Jónsdóttir segir að þau hjá Í-listanum séu vissulega pínu fúl að hafa misst meirihlutann, en þau séu engu að síður bjartsýn á framhaldið. „Við vorum meðvituð um að þetta gæti gerst, en þrátt fyrir að vera ekki með meirihluta erum við bjartsýn, enda búin að eiga mjög gott samstarf á síðasta kjörtímabili. Þetta leysist bara farsællega. Við erum búin að eiga samtal við bæði Framsókn og Sjálfstæðismenn. Núna snúast málin bara um traust.“
Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðismanna, segir að ekkert sé komið formlega fram. „Það eru nú bara þreifingar í gangi enn sem komið er, ekkert formlegt. Þetta skýrist vonandi í dag eða á morgun, þ.e. hvað tekur við. Ekki hefur enn verið boðað til fundar en óformlegar viðræður hafa átt sér stað á milli flokka.“
Margrét Lilja
milla@bb.is