Fólkið fyrir vestan vinalegt og lætur sig aðra varða

Guðrún Margrét Guðmundsdóttir fer ekki auðveldlega framhjá íbúum Ísafjarðarbæjar og nágrennis, þar sem hún þeysist glæsileg, glaðleg og vinaleg á milli bæjarfélaga. Með henni í för eru oftar en ekki fleiri nýir íbúar Vestfjarða, en Guðrún Margrét var ráðin hingað af Rauða krossinum fyrir vestan, sem arabískutúlkur og menningarmiðlari vegna móttöku kvótaflóttafólksins, sem flutti til Súðavíkur, Ísafjarðar og Flateyrar fyrir skömmu. En hver er þessi bjarta kona? “Góð spurning,” svarar Guðrún og heldur áfram, “ég er mannfræðingur, Reykvíkingur, móðir, nýbökuð amma, femínisti og mikil áhugakona um Miðausturlönd og íslam, mannréttindi og alþjóðapólitík.”

Guðrún Margrét hefur dvalið á Ísafirði síðastliðna þrjá mánuði en eins og áður kom inn á var hún ráðin hingað af Rauða krossinum hér fyrir vestan, sem og bæjunum og þorpunum sem koma að móttökunni. “Ég var fyrst ráðin hingað í þrjá mánuði, en fékk svo framlengingu í þrjá til viðbótar, þannig að ég verð hér fram á haustið. Mér líkar óskaplega vel að vera hér, ég hefði ekki trúað því að lífið hér væri svona frábrugðið því sem ég er vön í Reykjavík. Minnir mig helst á það að búa í Arabalöndum.” Guðrún Margrét segir að fólkið fyrir vestan sé svo vinalegt og láti sig aðra varða, eins og til dæmis að heilsast úti á götu. “Ég var oft spurð í upphafi af ókunnugu fólki, bara úti í búð og á flakki um bæinn, hver ég væri og af hverju ég væri á Ísafirði.” Guðrún Margrét segir að sér þyki þetta notalegt og bendir á að það þyki flóttafólkinu líka. “Það vissi ekki út í hvað það væri að fara og var kvíðið, en komst fljótt að því að það væri óþarfi. Undantekningalaust hefur fólkinu verið sýnd hlýja, velvilji og hjálpsemi, hvort sem um ræðir starfsmenn stofnanna, bankanna, spítalans, í skólanum, vinnunni eða bara úti í Bónus. Að ógleymdum sjálfboðaliðunum. Allt er þetta til fyrirmyndar.”

Sem túlkur hlýtur Guðrún Margrét að upplifa samskipti íbúa samfélagsins við flóttafjölskyldurnar náið og Guðrún tekur undir það. “Ég, sem túlkur, lendi oft í því að vera stoppuð af fólki sem vildi fá að bjóða flóttafjölskyldurnar velkomnar og ég átti að túlka fyrir það. Minnistæðust voru gömul hjón á Heilbrigðisstofnuninni sem var svo mikið í mun að bjóða þau velkomin og óska þeim góðs gengis.” Guðrún Margrét sinnir allri almennri túlkaþjónustu fyrir fjölskyldurnar frá Sýrlandi og Írak. Fyrst um sinn eiga þau rétt á ákveðnum stuðningi frá bænum og Rauða krossinum til að komast inn í kerfið, læra á það og aðlagast nýju samfélagi. “Áður en ég kom vestur vann ég í Kaíró fyrir Íslensku Friðargæsluna, sem kynjafræðingur hjá World Food Programma, eða Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna. Áður var ég lengi í Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, en ég hef einnig sinnt töluvert af félagsstörfum og við og við kennt í HÍ.”

Arabíska er líklega ekki fyrsta tungumálið sem Íslendingum dettur í hug að læra þegar víkka á tungumálasjóndeildarhringinn, hvað kemur til að Guðrún Margrét talar arabísku? “Ég flutti til Katar við Arabíuflóa þegar ég var 15 ára gömul. Ég kynntist fljótlega fyrrverandi eiginmanni mínum, sem er frá Líbanon og lærði þar af leiðandi arabísku. Tíu árum síðar flutti ég heim, fráskilin tveggja barna móðir og notaði arabískuna takmarkað þar til fyrir nokkrum árum síðan, þegar ég fór að fara aftur á svæðið og dvelja þar langdvölum.” Guðrún Margrét segir að arabískan sín sé mun betri nú en fyrir þremur mánuðum síðan, þegar hún kom fyrst vestur til að túlka fyrir flóttafjölskyldurnar. “Orðaforðinn náði ekki yfir tannlækningar, sjúkraþjálfun og lagaleg réttindi. Frekar yfir daglegt líf, matargerð og svoleiðis. Þar af leiðandi byrjaði ég flesta daga á því að lesa mér til og bæta orðaforðann með svona líka ágætum árangri, þó ég segi sjálf frá.” Guðrún Margrét fullyrðir að það sé ekki til betri leið til að læra tungumál en þessi. “Fólk reiðir sig á mann og maður hefur í raun ekkert vel nema að leggja sig allan fram.”

Þegar Guðrún Margrét er innt eftir því hvaðan áhugi hennar á málefnum flóttafólks sé uppurinn segir hún að hún hafi lengi haft áhuga á alþjóðastjórnmálum. “Ég hef lengi haft áhuga á alþjóðastjórnmálu, einkum Miðausturlanda og fylgst með hvernig ákvarðanir um stríð og árásir eru teknar og svo hverjar afleiðingarnar eru fyrir einstaklingana sem fyrir þeim verða.” Guðrún Margrét bendir á að ákvarðanir sem oft séu rökstuddar vel og vandlega séu, þegar betur er að gáð, oftar en ekki tengdar baráttunni um völd og auðlindir. “Maður hlustar til dæmis með öðru eyranu á “nauðsyn” þess að ráðast á skotmark eða oft jafnvel heila borg í Sýrlandi eða Írak, án þess að átta sig á ástandinu sem skapast í kjölfarið og hvernig líf fólks breytist. Heimili eyðilögð, þjónusta og samgöngur lamast og þá skapast líka oftar en ekki fullkomið kaos og óreiða. Fólk hefur misst allt sitt og er í lífshættu í þokkabót. Það þarf að flýja allt sem það þekkir og þykir vænt um. Ættingja, vini, götuna sína og endar svo til dæmis á Íslandi.”

Forvitnin rekur blaðamann áfram þegar hann spyr Guðrúnu Margréti hvað taki svo við þegar dvöl hennar hér fyrir vestan líkur. “Ég hef ekki hugmynd um það. Ég væri sko alveg til í að vera hér áfram ef eitthvað áhugavert byðist en mestan áhuga hefði ég þó fyrir því að fá verkefni annað hvort hjá Friðargæslunni eða Rauða krossinum, helst með flóttamönnum frá arabísku stríðunum og vonandi þá komið að liði.”

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA