Viltu gefa okkur tækifæri?

Magðalena Jónasdóttir.

Ég hef alltaf verið stimpluð sjálfstæðismaður. Er það vegna þess að pabbi minn er sjálfstæðismaður eða er það vegna þess að ég mynda mér mína eigin skoðun og einfaldlega heillaðist af þeim flokki? Vissulega hef ég í gegnum tíðina leitað til pabba og beðið hann um að gefa mér innsýn í flokksstarfið og þau málefni sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð fram. En ég hef líka dregið mínar eigin ályktanir og mótað mér sjálfstæða skoðun.

Undanfarin ár hef ég kynnt mér vinnu og stefnu Sjálfstæðisflokksins og langaði mig virkilega að geta haft áhrif. Þess vegna ákvað ég að bjóða mig fram nú. Það þýðir ekkert að ætlast til að aðrir geri hlutina fyrir þig – þú verður að vera tilbúin að reyna sjálf.

Á þessum stutta tíma í kosningabaráttunni hef ég lært ótal margt og mun klárlega fara reynslunni ríkari út í lífið. Mér finnst ég alveg ótrúlega heppin að fá að vera á lista með öllu því öfluga fólki sem skipar framboðslista Sjálfstæðisflokksins. Við erum öll tilbúin til að vinna vel fyrir bæinn okkar.

Stóra spurning er þessi: Hverjum ætlar þú að treysta fyrir peningunum þínum og bænum þínum á næsta kjörtímabili? Ég veit fyrir víst að ég treysti því fólki sem situr efst á lista Sjálfstæðisflokksins til þess að gera bæinn okkar að betra samfélagi. Hvernig væri að prófa að gefa þessu fólki tækifæri og sjá hverju það fær áorkað?

Að lokum þetta: Í sveitarstjórnakosningum ertu ekki endilega að kjósa flokk heldur ertu fyrst og fremst að kjósa einstaklinga til að stjórna bænum þínum næstu fjögur árin og gæta hagsmuna þinna.

Við í Sjálfstæðisflokknum erum fullviss um að tækifærin séu hér eins og slagorðið okkar segir. Við viljum nýta þessi tækifæri í botn og bið ég þig um að gefa okkur tækifæri til þess með því að kjósa okkur á laugardaginn.

Magðalena Jónasdóttir,

14. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins

DEILA