Hugaðar ákvarðanir til framfara hafa verið fengnar í gegn af almenningi en ekki stjórnmálamönnum

Framlag hefur aðeins eitt baráttumál og það er beint lýðræði til bæjarbúa í öllum grundvallar ákvörðunum bæjarins. Sagan hefur sýnt að flestar breytingar í samfélagi manna og hugaðar ákvarðanir til framfara hafa verið fengnar í gegn af almenningi en ekki stjórnmálamönnum. Við teljum að stjórnmálaflokkar í bæjarfélögum ættu ekki að vera að vasast í vasa íbúa án þess að fá fyrir því fulla heimild. Til dæmis varðandi loforð um frítt fæði fyrir skólakrakka. Þar ætti fyrst að spyrja foreldra hvort þeir vilji frekar auka við gæði í fæðuvali og þar að auki að athuga hvort foreldrum þyki vænlegra að gert verði meira af því að kenna börnum að rækta mat sinn sjálf í skólastarfi og þar með auka vitund barna um þá fæðu sem þau láta ofan í sig. Að vera að stæra sig af góðum fjárhag í gríðalegri skuldastöðu er ekki góð fjármálastjórnun auk þess sem flest bæjarfélög hafa bætt sig í þessu svokallaða góðæri. Ofan á allt er verið að leggja nú af stað í umdeilda og alltof dýra byggingu með meiri lántöku án upplýstu samþyki eigenda. Með þessu athæfi er verið að setja íbúa Bolungavíkur í framtíðarskuldagíslingu án þess að eigendur bæjarins fái nokkuð um það ráðið. Slíkt gerist ekki ef bæjarbúar fá að velja hvort þeir kæri sig yfirleitt um hinar og þessar framkvæmdir og innantóm loforð tekin úr vasa þeirra sem í bænum búa. Verið er að fylla fólk af kosningaloforðum í þeirri viðleitni til að fá út úr því atkvæði rétt fyrir kosningar. Eftir kosningar hefur fólk ekkert um það að segja hvað er gert. Þetta er í raun úthverfan á lýðræði. Má ætla að slíkt athæfi kunni teljast til þjófnaðar í framtíðinni og finnst okkur alveg orðið nóg af þessari mafíupólitík.

Framlag frá öllum

DEILA