Í tilefni kosninga spurði BB efsta fólk á öllum listum í fjórðungnum, sem og sveitarstjóra- og bæjarstjóraefni, af hverju kjósendur ættu að kjósa það. Hafdís Gunnarsdóttir er í öðru sæti á lista Sjálfstæðismanna í Ísafjarðarbæ og hennar svar er á þessa leið:
„Ég hef brennandi áhuga á stjórnmálum sem er vissulega kostur þegar stokkið er út í pólitík. Ég er fædd og uppalin á Ísafirði og Hnífsdal og brenn fyrir að sveitarfélagið mitt fái að vaxa og dafna. Hér vil ég ala upp börnin mín tvö, og þriðja á leiðinni, og búa þannig um haginn að hér hafi þau tækifæri til framtíðar til jafns við börn um allt land. Ég vil að þau séu stolt af því að búa í Ísafjarðarbæ. Við eigum að vera samkeppnishæfur valkostur fyrir fólk og fjölskyldur.
Ég hef komið víða við í félagsmálum og sem starfsmaður Ísafjarðarbæjar þekki ég innviði vel og hvernig þeir virka. Hef jafnframt fengið að kynnast þeim í nefndum bæjarins sem ég hef setið í á vegum Sjálfstæðisflokksins. Sem varaþingmaður hef ég öðlast ómetanlega reynslu á kjördæmavísu og einnig hlotnast sá heiður að sitja á Alþingi fyrir íbúa NV-kjördæmis.
Það þarf að halda betur um stjórnartaumana hjá Ísafjarðarbæ og vil ég bæta úr því með öllu því góða fólki sem er að gefa kost á sér í þessum kosningum. Þeir sem verða kjörnir bæjarfulltrúar Ísafjarðarbæjar þurfa ávallt að hafa það hugfast að þeir eru að sýsla með peninga íbúanna og það skal gera af varkárni. Við eigum alltaf að vanda vinnubrögðin okkar og muna að Ísafjarðarbær er stærri en miðbær Ísafjarðar. Ég heiti því, verði ég kosinn bæjarfulltrúi, mun ég vinna fyrir alla bæjarbúa en ekki bara fyrir þá sem greiða okkur í Sjálfstæðisflokknum atkvæði. Sama hvernig þetta fer á laugardaginn verðum við bæjarfulltrúar ykkar allra.“
Margrét Lilja
milla@bb.is