Samfélagið sem trompaði kerfið

Þórir Guðmundsson.

Styrkur hvers samfélags mælist best á því hvernig hlúð er að þeim sem standa höllum fæti. Í-listinn hefur að leiðarljósi að allir íbúar sveitarfélagsins njóti jafnra tækifæra og geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu – það er hornsteinn velferðarstefnu okkar. Við munum bæta aðgengi fólks með fötlun að stofnunum bæjarins, huga að húsnæðismálum eldriborgara, en þegar hefur verið stígið stórt skref í þeim málum með útboði fjölbýlishúss á Ísafirð. Leikskólamál eru í forgrunni hjá okkur, stækkun Eyrarskjóls verður boðin út strax á næsta ári og á kjörtímabilinu opnuðum við leikskóladeildina Tanga. Við leggjum áherslu á að efla þjónustu við þá einstaklinga sem standa höllum fæti vegna andlegra veikinda með sérstaka áherslu á ungt fólk.

Hrópandi aðstöðumunur

Út frá reynslu fjölskyldu minnar get ég hikstalaust gefið nærsamfélaginu í Ísafjarðarbæ A+ einkunn. Það sama verður ekki sagt um velferðarkerfi okkar Íslendinga sem ég og fjölskylda mín höfum þurft að berjast við síðustu tvö ár. Það hefur ekki verið auðveld barátta og óhjákvæmilega hafa velferðarmálin orðið að mínu hugðarefni – sérstaklega staða okkar á landsbyggðinni. Það er öllum ljóst sem kynnast kerfinu að það er víða laskað og á sumum vígstöðvum virkar það alls ekki.

Aðeins nokkurra mánaða gamall greindist sonur okkur með alvarlegan sjúkdóm. Okkur var strax gert ljóst að framundan væri hörð barátta og höfum við farið óteljandi ferðir til Reykjavíkur í rannsóknir og meðferðir. Það er ávallt reiðarslag fyrir foreldra að standa i þeim sporum að barnið þeirra er alvarlega veikt. Ofan á þetta þurfum við sem búum á landsbyggðinni að glíma við mikinn ferðakostnað.

Eins og staðan er í dag er greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands í ferðakostnaði hlægilega lítil. Einungis er greitt fyrir einn fylgdarmann með veiku barni sem er auðvitað óboðlegt. Í mínum huga er hreinlega óskiljanlegt að það þurfti að berjast fyrir þessu. Börn og foreldrar eiga að hafa þann skýlausa rétt að vera hlið við hlið á erfiðum tímum.

Einfaldast að flytjast suður

Ef ekki hefði verið fyrir hlýhug vina, vandamanna og í mörgum tilvikum ókunnugura – sem hafa styrkt okkur og aðstoðað í hvívetna – værum við annað hvort flutt suður eða á vonarvöl fjárhagslega. Það þarf ekki að taka fram hversu djúpt snortin við erum að finna stuðning samfélagsins okkar. Meðal annars þess vegna hef ég ákveðið að bjóða mig fram til bæjarstjórnar – mig langar til að leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að gera gott samfélag enn betra. En það eru ekki allir eins heppnir og við. Í bænum býr fólk sem hefur ekki sama bakland og við höfum haft en þarf að sækja heilbrigðisþjónustu utan bæjarins, aldraðir, öryrkjar og fólk af erlendum uppruna svo dæmi séu tekin.

Við í Í-listanum ætlum að beita okkur af fullum þunga í velferðarmálum. Bæði með því að byggja upp og hlúa að þeirri þjónustu sem er á hendi sveitarfélagsins og ekki síður að beita okkur af fullum þunga og fá ríkisvaldið til að viðurkenna hrópandi aðstöðumun landsbyggðarinnar og koma með úrbætur. Kerfið má ekki vera þannig upp byggt að þegar fólk keyrir á vegg – hvort sem það er vegna eigin veikinda eða barna, líkamlegra eða andlegra veikinda – að það neyðist til að flytjast suður. Það er ekki boðlegt í nútímalegu velferðarsamfélagi.

Þórir Guðmundsson

Höfundur er í 5. sæti Í-listans

DEILA