Margföldun orkuöryggis með Hvalárvirkjun

Elías Jónatansson, orkubússtjóri.

Margt hefur verið ritað um áhrif Hvalárvirkjunar á orkuöryggið á Vestfjörðum á undanförnum misserum. Því miður er því ranglega haldið fram að jákvæð áhrif séu lítil eða jafnvel hverfandi. Þær fullyrðingar standast enga skoðun, því virkjunin mun hafa gríðarlega jákvæð áhrif hvað orkuöryggi varðar. Hönnun flutningskerfisins mun þó vissulega hafa áhrif á það hvernig til tekst.

Fallhlífarstökkvarinn og öryggið

Ímyndum okkur fallhlífarstökkvara sem stekkur úr flugvél. Fallhlífarpokinn hefur tvær fallhlífar, aðalfallhlífina sem stökkvarinn hefur pakkað sjálfur og aðra sem pökkuð er af sérmenntuðu fólki, en er einungis opnuð í neyðartilfellum. Varafallhlífin er reyndar talin hafa mun meira öryggi en fallhlífin sem stökkvarinn hefur pakkað sjálfur, en látum það atriði liggja á milli hluta hér.

Hversvegna skildu menn hafa tvær fallhlífar fremur en að hafa bara eina „örugga“ fallhlíf. Jú það er til að auk öryggið. Skoðum tölur í þessu samhengi og gefum okkur að líkur á að fallhlíf opnist séu 99,9%, en það jafngildir því að fallhlífin opnist ekki í eitt skipti af hverjum þúsund sem stokkið er. Það þætti líklega ekki nægjanlegt og því hafa menn brugðist við slíku með því að hafa varafallhlíf.

En hvernig breytist öryggi fallhlífarstökkvarans við að vera með varafallhlíf sem jafnvel hefði bara sama öryggi og aðalfallhlífin. Að því gefnu að ástæður fyrir því að aðalfallhlífin og varafallhlífin opnist ekki séu í raun óháðir viðburðir (ekki hafi t.d. verið um skemmdarverk á þeim að ræða) þá er það ekki þannig að öryggið tvöfaldist og verði einn á móti tvöþúsund. Nei staðreyndin er sú að öryggið þúsundfaldast. Líkurnar á því að báðar fallhlífarnar bili í sama stökkinu verða nefnilega einungis einn á móti milljón.

Raforkukerfið og fallhlífin

En hvernig tengist þessi fallhlífarumræða orkumálum Vestfirðinga? Svarið við því er einfalt.

Ímyndum okkur raforkukerfið á Vestfjörðum sem tengt er meginflutningskerfi raforku með einni 160 km langri línu, svokallaðri Vesturlínu frá Hrútatungu í Mjólká. Áreiðanleikastuðull raforkukerfisins á Vestfjörðum er 99,978% að kerfi Landsnets á Vestfjörðum meðtöldu. Ó-öryggið er því 0,022%. Við gætum sagt að það samsvaraði 115 straumleysismínútum á ári. Þessa tölu má svo reyndar lækka með því að keyra varaafl.

Öflug virkjun og öflug tenging

Hugsum okkur til samanburðar að sett væri á laggirnar ný virkjun á Vestfjörðum sem ræður við allt aflið sem Vestfirðir þurfa á að halda og hún væri tengd inn á hring sem tengir alla stærstu þéttbýlisstaðina á Vestfjörðum, líkt og gert er ráð fyrir í drögum að kerfisáætlun Landsnets. Ef sú virkjun og tenging hennar inn á hringinn hefði bara sama öryggi og byggðalínan hefur í dag þá gerist það sama og í tilfelli fallhlífarstökkvarans. Líkurnar á því að bæði byggðalínukerfið og ný virkjun og tenging inn á hringinn bili samtímis verða örsmáar 0,00000484%. Munurinn er meira en fjögurþúsundfaldur vegna þess að tengingarnar eru tvær. Forsenda þessa er að þeir viðburðir sem valda bilunum á þessum tveimur kerfum séu óháðir. Línur sem liggja þvert hvor á aðra eru dæmi um línur sem eru ólíklegar til að bila samtímis t.d. vegna veðurs og bilanir á þeim eru því tiltölulega óháðir viðburðir. Hið sama gildir um, jarðstreng og línu. Dæmi um slíka virkjun er Hvalárvirkjun. Það er því óhætt að fullyrða að bygging hennar og tenging inn á raforkukerfi Vestfjarða, með eins óháðri tengingu og framast er kostur við þá tengingu sem fyrir er, muni hafa gríðarlega jákvæð áhrif á raforkuöryggið á Vestfjörðum.

Landsnet er lykilaðili

Hönnun flutningskerfisins er í ekki í höndum virkjunaraðila og ekki heldur í höndum Orkubús

Vestfjarða því það er Landsnet sem er með einkaleyfi á raforkuflutningi á Íslandi. Landsnet hefur það hlutverk að ákveða legu jarðstrengja og flutningslína þannig að það gagnist landsmönnum sem best. Vestfirðingar eru þar á meðal. Landsnet gegnir því algjöru lykilhlutverki í því að tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum ásamt þeim virkjunaraðilum sem framleiða raforku og dreifingaraðilanum sem er Orkubú Vestfjarða. Allir þessir þrír aðilar þurfa að vinna vel saman til að tryggja raforkuöryggið.

Margfalt raforkuöryggi með öflugri virkjun

Hvalárvirkjun er dæmi um virkjun sem getur tekið á sig allt það afl sem Vestfirðir þurfa hverju sinni auk þess sem til staðar eru virkjanir eins og Mjólkárvirkjun sem getur tekið hluta álagsins. Engin einn annar virkunarkostur er í spilunum núna á Vestfjörðum sem ræður við allt álagið á Vestfjörðum og enginn virkjunarkostur sem kemst nærri Hvalárvirkjun í afli er í sjónmáli á Vestfjörðum í náinni framtíð.

Líkindafræðin segir okkur þannig að bygging Hvalárvirkjunar og örugg tenging hennar inn á raforkukerfið á Vestfjörðum geti fræðilega séð orðið til þess að flutningsöryggið þúsundfaldist fremur en tvöfaldist ef rétt er haldið á spöðunum. Fræðin eru ekki óskeikul og náttúran er í sjálfu sér óútreiknanleg, en fræðin sýna okkur klárlega í þessu tilfelli hvert stefnir. Niðurstaðan er einfaldlega að straumleysi í heilu byggðarlögnum vegna bilunar í flutningskerfinu væri nánast úr sögunni.

Ísafirði 22. maí 2018

Elías Jónatansson,

Orkubússtjóri, Orkubús Vestfjarða

DEILA