Hvað á ég að kjósa?

Nú fer að líða að sveitarstjórnakosningum og fólk byrjar að velta fyrir sér hvað það á að kjósa. Það er stór og jafnframt mikilvæg ákvörðun hvað þú kýst því fólkinu sem þú kýst gefur þú möguleika á að sjá um peningana sem þú vinnur þér inn og borgar í skatta. Þú vilt að vel sé farið með þessa peninga sem þú lætur af hendi til að hjálpa samfélaginu og halda því gangandi. Að mínu mati snýst þetta mjög mikið um traust, hverjum treystir þú næstu fjögur árin fyrir þessu?

Víða um landsbyggðina þar sem lítil sveitarfélög eru þá þekkir maður fólkið sjálft á mörgum listum og þá kemur spurningin aftur hverjum af þeim treysti ég best? Þú getur byrjað á því að hugsa hvernig kemur manneskjan fram við þig og hvort hún á skilið þitt atkvæði? Ef hún kemur ekki almennilega fram við þig á hún þá að fá að taka ákvarðanir sem snerta þig? Einnig getur þú hugsað hvernig er raðað á listann. Er fólk á öllum aldri og af báðum kynjum, er fólkið dreift um svæðið, er fólk af mismunandi áhugasviði og starfsvettvangi?

Það sem mér finnst mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir er að þú ert ekki að kjósa flokkana og fólkið á alþingi núna, þú ert að kjósa fólk sem þú þekkir eða kannast við, hefur talað við. Kannski fólk sem er mögulega foreldri vinar þíns og jafnvel bara vinur þinn eða gamli kennarinn þinn eða samstarfsfélaginn þinn eða manneskja sem brosir alltaf til þín þegar þú labbar framhjá og heilsar þér.

Allt þetta að ofan finnst mér skipta máli, og eiga að vega þyngra í sveitarkosningum en að horfa til hægri eða vinstri, eða hvaða flokk þú hatar á þingi því það skiptir ekki eins miklu máli þegar kemur að sveitarstjórnarkosningum. Það vilja allir flokkar og allir á listanum gera bæinn okkar allra betri, þetta er bara spurningin „hverjum treystir þú?”

Bjarni Pétur Marel Jónasson

Nemi við Menntaskólann á Ísafirði

DEILA