Við ætlum að gera Bolungarvík að eftirsóknarverðum stað fyrir ungt fjölskyldufólk

Baldur Smári Einarsson.

BB fór á stúfana og spurði efsta fólk á öllum listum í fjórðungnum, sem og bæjarstjóraefni, af hverju fólk ætti að kjósa það. Baldur Smári Einarsson er 1. maður á lista Sjálfstæðismanna og óháðra í Bolungarvík og hans svar er á þessa leið:

“Þú ættir að kjósa mig vegna þeirra góðu stefnumála sem Sjálfstæðismenn og óháðir ætla að einbeita sér að á komandi kjörtímabili. Þar ber helst að nefna að við viljum að sveitarfélagið verði leiðandi í umhverfisátaki og fegrun bæjarins og ráðast þar með í aukið viðhald á götum, gangstéttum og fasteignum bæjarins. Við ætlum að gera Bolungarvík að eftirsóknarverðum stað fyrir ungt fjölskyldufólk og viljum að skólamáltíðir í leik- og grunnskóla verði gjaldfrjálsar ásamt því að við munum hækka frístundastyrk um 100% þannig að hann verði 40 þúsund krónur á ári. Við gleymum ekki eldri kynslóðinni og munum auka fjölbreytni í tómstundaraðstöðu fyrir eldri borgara og ætlum að bjóða upp á frístundastyrk fyrir eldri borgara og öryrkja. Unga fólkið sem lokið hefur grunnskóla hefur oft setið á hakanum en við viljum koma upp aðstöðu til náms og afþreyingar fyrir ungmenni 16 ára og eldri. Önnur stefnumál okkar eru t.d. að stuðla að ljósleiðaravæðingu bæjarins og koma á strætóferðum milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Til að tryggja að þessi stefnumál nái fram að ganga munum við leggja okkur fram um að viðhalda góðri fjárhagsstöðu bæjarins með ábyrgri fjármálastjórn en það er grundvöllur góðra verka sem við viljum vinna fyrir fólkið í Bolungarvík.”

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA