Framtíðin er hér

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður Norðvesturkjördæmis.

Mörg hundruð frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins um allt land vinna nú hugmyndum sínum og stefnumálum fylgis í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, hver í sinni heimabyggð. Alls eru frambjóðendur á listum flokksins næstum því 500 talsins.

Þessi mikli fjöldi sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn er einstakt stjórnmálaafl; sannkölluð fjöldahreyfing. Ég nýt þeirra forréttinda að hafa fengið að heimsækja frambjóðendur og stuðningsmenn flokksins í mörgum sveitarfélögum á undanförnum vikum. Hvarvetna ríkir metnaður til að gera betur, með bjartsýni, gleði og kraft að leiðarljósi.

Sem frambjóðandi og þingmaður Norðvesturkjördæmis hef ég kynnst flokksfólki hér í Ísafjarðarbæ afar vel. Í nálgun þeirra á viðfangsefnin er sleginn réttur tónn. Nálgunin einkennist af þeirri sjaldgæfu blöndu af harðfylgi og jákvæðni sem sameinar frekar en sundrar, leiðir frekar en eltir, leysir frekar en flækir, og sigrast þannig á áskorunum.

Lesendur þekkja stefnumál Sjálfstæðisflokksins hér í sveitarfélaginu. Þau lúta bæði að nauðsynlegum úrbótum og framfaramálum í nærsamfélaginu sem og hagsmunagæslu á víðari grundvelli í þágu byggðarlagsins.

Ég trúi að framtíðin sé björt fyrir Ísafjarðarbæ. Sé rétt á málum haldið munu fiskeldi og ferðaþjónusta skjóta sterkari og fjölbreyttari stoðum undir atvinnulífið. Dæmin sanna að spennandi nýsköpun í framleiðslu og tækni hefur fulla möguleika á að dafna hér og leita ber leiða til að greiða götu slíkrar viðleitni eftir því sem unnt er. Krafturinn býr í fólkinu; verkefni okkar stjórnmálamanna er að hlúa að jarðveginum. Ég get fullvissað lesendur um að við finnum öll til ábyrgðar í þeim efnum. Og verkefnin eru ærin.

Á sama hátt og vítahringur hnignunar getur sett af stað viðstöðulausa og illviðráðanlega afturför á flestum sviðum trúi ég því að hér í Ísafjarðarbæ geti áður en langt um líður myndast jákvæður spírall þar sem vöxtur á einu sviði smitar út frá sér yfir á önnur svið, bæði í efnahagslegu og félagslegu tilliti. Með öðrum orðum: Framtíðin er hér, sé rétt á málum haldið.

Ég veit að frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins, með Daníel og Hafdísi í broddi fylkingar, hafa það sem þarf til að nýta tækifærin.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir

varaformaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður Norðvesturkjördæmis

DEILA