62% hækkun á fimm árum

Gjaldskrá fyrir bréfapóst hjá Íslandspósti hækkað í verði um 11 prósent í síðustu viku vegna fækkunar bréfa og launahækkana starfsfólks. Póst og fjarskiptastofnun samþykkti hækkunina skömmu fyrir síðustu mánaðamót. Íslandspóstur á einkarétt á þjónustu bréfapósts en á í samkeppni um fjölpóst.

Félag atvinnurekenda gagnrýnir hækkunina á verðskrá Íslandspósts og segir hana þá sjöundu á tæpum fimm árum. Þjónustan hafi hækkað í verði um 62,5 prósent frá því í júlí 2012.

Í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda er það gagnrýnt að gjaldskrá fyrirtækisins fyrir bréfapóst þar sem Íslandspóstur hefur enga keppninauta er hækkuð en verðskrá fyrir fjölpóst þar sem er samkeppni sé óbreytt þrátt fyrir launahækkanir. Keppinautar fyrirtækisins neyðist hinsvegar til að hækka sína gjaldskrá vegna mikilla launahækkana samkvæmt kjarasamningum.

smari@bb.is

DEILA