Búlandstindur tekur nýjan búnað frá Skaginn3X í notkun

Nýr ofurkælingarbúnaður var tekin í notkun hjá Búlandstindi á Djúpavogi í vikunni. Búnaðurinn getur ofurkælt 19 tonn af laxi á tímann, sem eykur gæði framleiðslunnar, eykur líftíma vöru og sparar mikið við flutning á markað. Elís Grétarson framleiðslustjóri hjá Búlandstindi bindur miklar vonir við búnaðinn, sem er engin smá smíði. Um hátæknibúnað er að ræða sem byggir á áralöngum rannsóknum á ofurkælingu á laxi og þorski. Þeim rannsóknum hefur verið stýrt frá Ísafirði í samstarfi við Matís, en fjöldi fyrirtækja frá fjórum löndum tóku þátt í þróunarverkefni um ofurkælingu.

Í dag er uppistaða framleiðslu Skagans3X á Ísafirði smíði og þróun á ofurkælingarbúnaði fyrir laxavinnslu og sjávarútvegfyrirtæki. Slíkur búnaður hefur verið settur um borð í fimm nýja togara og tvær laxavinnslur á Íslandi og einnig hefur búnaðurinn verið settur upp í Noregi. Um byltingu er að ræða í meðhöndlun á hráefni og vinnslu fyrir kröfuharða markaði. Með ofurkælingu er ís óþarfur, sem getur sparað mikið við flutning og dregið verulega úr sótspori við flutning, sérstaklega þegar flutt er með flugi á erlenda markaði.

Að lokinni heimsókn til Djúpavogs var komið við á Vopnafirði þar sem Skaginn3X og Matís stýrðu frekari rannsóknum á ofurkælingu á þorski. Á Vopnafirði rekur HB Grandi fullkomnustu fiskvinnslu landsins, sem framleiðir ferskar afurðir úr þorski fyrir kröfuharða markaði. Þennan dag var verið að vinna afla af nýju skipi fyrirtækisins, Engey, sem er með ofurkælingarbúnað frá Skaginn3X. Aflanum var landað íslausum í Reykjavík og ekið með hann mörg hundruð kílómetra leið til Vopnafjarðar án þess að ísa hann. Mikill sparnaður við léttari flutning fæst með þessum hætti og aðferðin tryggir einnig bestu gæði á hráefni fyrir kröfuharða vinnslu.

 

 

Gunnar

DEILA