Í tilefni af Eurovision söngvakeppninni í kvöld ákvað blaðamaður BB.is að heyra í tónlistarfólki tengdu Vestfjörðum og spyrja það nokkurra spurninga. Hvort þau séu Eurovision aðdáendur og hvert sé þeirra uppáhalds Eurovision lag. Hér má sjá svör þeirra og finna skemmtileg lög til að koma sér í Eurovision gírinn fyrir kvöldið.
Gígja Skjaldardóttir frá Patreksfirði er í hljómsveitinni Ylju sem vinnur um þessar mundir að nýrri plötu. Er Gígja Eurovision aðdáandi? „Nei ég myndi ekki segja það. En ég hef samt alveg gaman af þessu og öllu umstanginu í kringum það. Eurovision er bara partur af prógramminu. Það er gaman að tala um það, hvort sem fólki þykir það gott eða slæmt. Eurovision er líka ákveðin vorboði fyrir mér. Ég fer bara að hugsa um grill og góðar stundir þegar ég byrja að heyra Europoppið óma á rásum“. Gígja á sér líka uppáhalds Eurovision lag: „Mér finnst hið ítalska Non Ho L’Etá frá 1964 alveg sturlað, en það er auðvitað kannski út af því að maður hefur alltaf þekkt það sem Heyr mína bæn, sem til dæmis Ellý Vilhjálms son. Svo elska ég til dæmis líka Euphoria sem sænska tónlistarkonan Loreen vann með árið 2012. Piltur og stúlka sem Björn Jörundur og félagar tóku í undankeppninni 2015 er í miklu uppáhaldi hjá mér og kærasta mínum og okkar bestu vinum og er það sungið við öll tækifæri af mikilli innlifun“ segir Gígja kát.
Hér er hægt að hlusta á Non Ho L’Etá: https://www.youtube.com/watch?v=Utd9cHBPfRA
Skúli Gautason gegnir starfi menningarfulltrúa Vestfjarða en hann er einnig í hljómsveitinni Sniglabandið. Skúli segist hafa mjög gaman af Eurovision: „Jájá ég hef voða gaman að Eurovision. Mér finnst bara að Íslendingar eigi að gera þetta meira með hjartanu. Við eigum að senda lög sem að hrífa fólk en ekki reyna að fylla upp í einhverjar formúlur“. Skúli er ekki í neinum vandræðum með að nefna sitt uppáhalds Eurovision lag: „Uppáhalds lagið mitt er lag sem heitir My star með hljómsveit Brainwash og keppti fyrir Lettland árið 2000. Það er lang skemmtilegasta Eurovision lag allra tíma“ segir Skúli hress.
Hér er hægt að hlusta á My star: https://www.youtube.com/watch?v=N1y9xhmMSDk
Heiða Ólafsdóttir frá Hólmavík er frábær tónlistarkona og hefur meðal annars staðið fyrir Eurovision tónleikum núna í vor: „Já ég er Eurovision aðdáandi enda ekki annað hægt en að hrífast með þar sem þetta er virkilega skemmtileg afþreying full af litum og gleði“ segir Heiða, „Uppáhaldslagið mitt er Euphoria. Það hefur svo mikla dýpt og breidd og frábæran flutning hjá Loreen“.
Hér er hægt að hlusta á lagið á úrslitakvöldinu: https://www.youtube.com/watch?v=Pfo-8z86x80
Herbert Guðmundsson hefur verið afkastamikill í íslensku tónlistarlífi bæði með ýmsum hljómsveitum og einnig sem sólólistamaður. En hvað finnst honum um Eurovision? „Ég hef alltaf haft gaman að því að fylgjast með Eurovision, keppnin hvetur listamenn til dáða í lagasmíðum og gefur fullt af ungu fólki tækifæri“. Aðspurður hvað sé hans uppáhalds Eurovision lag svarar Herbert: „Mitt uppáhalds lag í keppninni er sænska lagið Euphoria með Loreen árið 2012. Það er flott lag, kraftur í því, góð melódía og mjög vel flutt. Var svolítið ferskt þegar það kom. Plús að vera prógrammað eins og tónlistin sem ég hef verið að gera til dæmis á nýju plötunni minni Starbright“ segir Herbert að lokum.
Blaðamaður BB.is óskar öllum góðrar skemmtunar í kvöld!
Dagrún Ósk / bb.is