Fossavatnsgangan er glæsilegur stórviðburður. Við gestirnir njótum þess að ganga þar að góðu skipulagi, vönduðum undirbúningi, margvíslegri aðstoð sjálfboðaliða og síðast en ekki síst því einstaka viðmóti og myndarskap sem allir heimamenn sýna okkur. Fyrir þetta er sannarlega mikil ástæða til að þakka.
Ferðafélag Íslands hefur síðustu þrjú ár starfrækt vekefni þar sem þátttakendur geta undirbúið sig fyrir þraut sem nefnist landvættir en þar eru fjórar þrautir hver í sínum landshluta. Landvættaverkefnið er á vegum atorkusamra einstaklinga. Á Ísafirði skal ganga á skíðum 50 km, á Reykjanesi eru hjólaðir 60 km, í Urriðavatni á Héraði synda menn 2,5 km og hlaupa skal rúma 33 km í Jökulsárgljúfri. Þessum áföngum á að ná innan 12 mánaða. Fyrsta árið voru 13 manns í undirbúningshópi Ferðafélagsins og luku keppni. Það næsta skráðu sig 40 manns og nú eru um 80 manns skráðir og tóku flestir þeirra þátt í síðustu Fossavatnsgöngu sl. apríl. Auk þess fóru þátttakendur Ferðafélagsins í æfingabúðir á Ísafirði í vetur. Alltaf er hægt að ganga að góðri gisingu, úrvals mat og þjónustu.
Fossavatnsgangan nú um daginn var glæsileg hvar sem á var litið. Í aðdraganda voru öll samskipti og skráning hnökralaus, merkingar, tímataka, skipulag á móttstað, brautarsporið og umferðarmál í afar góðu lagi svo fátt eitt sé nefnt sem krefst mikillar vinnu og nákvæmni. En þá er ótalin vinna sjálfboðaliðanna sem stóðu vaktina á drykkjastöðvum við brautina og öryggis- og björgunarlið sem þeysti um á vélsleðum með sjúkrabörur tilbúið að veita aðstoð. Að keppni lokinni beið okkar kökuveisla með fjölbreytilegum kökum og brauðréttum í íþróttahúsinu, allt útbúið í heimahúsum. Öllu lauk síðan með matarveislu og balli og dúndrandi stuði. Þeir sem héldu að þeir gætu ekki risið úr sætum sínum vegna stirðleika í gömlum kroppi eftir gönguna fannst sem þeir breyttust í lipra unglinga þegar þeir fóru hamförum á dansgólfinu langt fram eftir kvöldi.
Ferðafélag Ísafjarðar er deild í Ferðafélagi Íslands og þar hefur starfsemin blómstrað síðustu ár undir forystu dugnaðarfólks og mátti sjá þar félaga að störfum við Fossavatnsgönguna. Ferðafélag Íslands vill þakka Ísfirðingum og nágrönnum þeirra fyrir móttökurnar og óska þeim til hamingju með Fossavatnsgönguna sem eflir bæði gleði og heilsu okkar gestanna en verkefnið er meðal mikilla verðmæta sem Ísfirðingar og nágrannar eiga, eflir samkend og metnað þeirra og skilar aukinni starfsemi í bæjarlífið.
Ólafur Örn Haraldsson
Forseti Ferðafélags Íslands