Sjálfstæðisflokkurinn í Ísafjarðarbæ birtir stefnuskrá fyrir komandi kosningar

Sjálfstæðisflokkurinn í Ísafjarðarbæ.

Sjálfstæðisflokkurinn í Ísafjarðarbæ birti á föstudaginn stefnuskrá sína fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Helstu stefnumál þeirra má sjá hér fyrir neðan en stefnuna í heild sinni, sem og aðrar upplýsingar tengdar framboði flokksins, má nálgast á Facebooksíðu Sjálfstæðisflokksins, sem og í Kosningamiðstöð þeirra að Aðalstræti 24. Kosningamiðstöðin er opin milli 12 og 13 þessa vikuna og aftur á milli 16 og 18.

Setja umhverfið í forgang

Sjálfstæðisflokknum í Ísafjarðarbæ finnst mikilvægt að byggðarlögin og hverfin í bænum séu vel hirt og að eignum bæjarins sé vel við haldið. Þess vegna verður umhverfið sett í forgang. Mála hús, slá gras, sópa götur og gangstéttir og viðhalda almenningsgörðum og -svæðum. Hreinn bær er góður bær.

Verða forystusveitarfélag á Vestfjörðum á ný

Flest stærstu hagsmunamál íbúa eru ekki á forræði sveitarfélaga. Þar má nefna helst samgöngur, atvinnumál, opinbera þjónustu og bætt raforkuöryggi. Eitt helsta verkefni bæjarfulltrúa er því hagsmunagæsla fyrir íbúa, fyrirtæki og svæðið í heild. Sjálfstæðisflokkurinn í Ísafjarðarbæ mun beita sér fyrir því að þessi mál fái brautargengi.

Berjast fyrir því að Ísafjarðardjúp verði opnað fyrir fiskeldi

Það er skynsamlegt fyrir svæðið og þjóðina alla að byggja upp fiskeldi hér. Það er vel hægt að gera í sátt við umhverfið. Fiskeldi mun stuðla að fjölbreytni í atvinnulífinu og tækifæri skapast til að sækja fram. Sjálfstæðisflokkurinn í Ísafjarðarbæ mun beita sér af alefli fyrir því að fiskeldi haldi áfram að vaxa. Bæði með samtali við stjórnvöld og stofnanir og með því að mæta þörfum fyrirtækjanna um lóðir og aðstöðu.

Tryggja leikskólapláss frá tólf mánaða aldri

Sjálfstæðisflokkurinn í Ísafjarðarbæ ætlar að byggja við Eyrarskjól og aðra leikskóla eftir þörfum. Samfélagið kallar eftir því að við lok fæðingarorlofs geti börn fengið dagvistunarúrræði og það vill listinn tryggja. Jafnframt er vilji fyrir því að gefa út hvenær börn geta byrjað á leikskóla með góðum fyrirvara. Þannig geta foreldrar skipulagt það hvenær þau geta byrjað að vinna aftur.

Byggja fjölnota íþróttahús og tryggja nútímalega aðstöðu fyrir líkamsrækt

Framkvæmdir við fjölnota íþróttahús þurfa að hefjast strax. Góð aðstaða til íþróttaiðkunar hefur áhrif á það hvar fólk kýs að búa. Fjölnota íþróttahús hefur verið efst á óskalista íþróttahreyfingarinnar um árabil enda eykst, við það, framboð á tímum í íþróttahúsum fyrir allar íþróttagreinar. Samhliða þessu þarf að leggja gervigras á núverandi keppnisvöll þannig að hægt sé að æfa og spila keppnisleiki á vorin og haustin. Sjálfstæðisflokkurinn í Ísafjarðarbæ vill að íbúar hafi aðgang að góðri líkamsræktaraðstöðu og finnst mikilvægt að finna hagkvæma og góða lausn í þeim efnum.

Stórbæta almenningssamgöngur innan sveitarfélagsins

Almenningssamgöngur þarf að hugsa alveg upp á nýtt. Þær þurfa að virka þannig að íbúar geti sótt þjónustu og vinnu á milli byggðakjarna og börn á leið í íþróttir og tómstundir. Hugmyndin er að kerfið lagi sig að þeim sem ferðast en ekki öfugt. Fyrirmyndir af þessu má finna víða m.a. á norðurlöndum.

Beita okkur fyrir byggingu íbúða fyrir eldri borgara

Sjálfstæðisflokkurinn í Ísafjarðarbæ vill að eldri borgarar geti búið heima eins lengi og þeir óska þess. Mikilvægt er að tryggja framboð af íbúðum sem henta þessum aldurshópi og taka mið af þörfum og þjónustu við hann. Því ætlar listinn að stuðla að því að byggðar verði íbúðir fyrir þennan aldurshóp.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA