Engir framboðslistar bárust kjörstjórn Strandabyggðar vegna sveitarstjórnarkosninga 26. maí næstkomandi og verða því óbundnar kosningar eða persónukjör. Allir kjósendur í sveitarfélaginu eru þá í kjöri með þeirri undantekningu að þeir sem setið hafa í sveitarstjórn eitt kjörtímabil eða lengur geta skorast undir kjöri. Aðeins tveir einstaklingar hafa skilað inn bréfi þess efnis að þeir gefi ekki kost á sér á kosningunum og verða nöfn þeirra auglýst síðar segir Viktoría Rán Ólafsdóttir sem situr í kjörstjórn Strandabyggðar.
Óbundnar kosningar eru vissulega óalgengari en bundnar á Íslandi: „Þetta er nýtt ferli fyrir mörgum og þá sérstaklega yngri kynslóðum sveitarfélagsins. Við leitum í reynslubanka stjórnarráðsins og nágranna sveitarfélaga eftir helgi og sendum frá okkur nánari upplýsingar um undirbúning og framkvæmd kosninganna,“ segir Viktoría.
Á heimasíðu stjórnarráðs Íslands má nálgast þessar upplýsingar um óhlutbundnar kosningar:
„Kjörseðill við óbundna kosningu er mjög frábrugðin kjörseðli við bundnar listakosningar. Kjörseðillinn er tvískiptur. Efri hluti kjörseðils skal ætlaður fyrir nöfn og heimilisföng aðalmanna en neðri hluti hans fyrir nöfn og heimilisföng varamanna. Á neðri hluta kjörseðils skal vera töluröð miðuð við fjölda þeirra sem kjósa á. Atkvæðagreiðsla fer fram með þeim hætti að kjósandi skrifar á kjörseðilinn fullt nafn og heimilisfang aðalmanna á þann hluta kjörseðilsins sem ætlaður er fyrir kjör aðalmanna. Á þann hluta seðilsins sem ætlaður er fyrir kjör varamanna skal kjósandi rita nöfn varamanna og heimilisföng þeirra í þeirri röð sem hann kýs að þeir taki sæti allt að þeirri tölu sem kjósa á.
Ekkert er því til fyrirstöðu að kjósandi riti upplýsingar um nöfn og heimilisföng þeirra aðal- og varamanna sem hann hyggst greiða atkvæði á blað sér til minnis og hafi það sér til stuðnings í kjörklefa á meðan hann greiðir atkvæði.“
Dagrún Ósk / dagrun@bb.is