Uppbygging í leikskólamálum!

Elísabet Samúelsdóttir.

Það er liður í fjölskylduvænna samfélagi að fæðingarorlof sé lengt og að börnum sé tryggð örugg dagvistun strax að loknu fæðingarorlofi foreldra. Hlutir eins og fæðingarorlof og dagvistunarúrræði eru líka stór þáttur í því að hafa áhrif á atvinnuþátttöku kvenna. Dagvistunarþjónusta snýst um að veita börnum bestu mögulegu uppvaxtarskilyrði en líka að tryggja báðum foreldrum möguleika til þátttöku á vinnumarkaði.

Á Íslandi eru lög um leikskóla en ekkert kveðið á um það við hvaða aldur börn eiga rétt á leikskólavist. Á Norðurlöndunum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við er aftur á móti lögbundinn réttur barna til dagvistunar frá tilteknum aldri sem helst í hendur við rétt foreldra til fæðingarorlofs. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni má áætla að börn komist að meðaltali í einhverja dagvistun frá 12-15 mánaða aldri. Fæðingarorlof á Íslandi fyrir báða foreldra er samanlagt 9 mánuðir. Uppi eru hugmyndir á Alþingi að lengja samanlagt orlof í 12 mánuði en á meðan það hefur ekki verið samþykkt þurfa foreldrar að brúa bilið þarna á milli í 3-6 mánuði og oftast lengur með tilheyrandi tekjuskerðingu.

Hér í Ísafjarðarbæ er stefnan sú að börn fái inngöngu á leikskóla eigi síðar en við 18 mánaða aldur. Flestir grípa til þess ráðs að fara með barnið sitt til dagmóður til að brúa þetta bil ef sá möguleiki er í boði. Engar dagmæður hafa hins vegar verið starfandi hér síðastliðið ár og fáar þar á undan og oft engin. Erfitt reynist að fá fólk í þessu störf. Mæður hafa sjálfar gripið til þess ráðs að gerast dagmæður til að leysa eigin dagvistunarvanda en flestar hætta um leið og barnið sitt kemst inná leikskóla. Á meðan dagmæður eru einkaaðilar og ráða sér sjálfar, gjaldi sínu, vistunartíma og lokunum þá verður aldrei nægilegur stöðugleiki í starfi þeirra hvorki fyrir þær né fjölskyldur sem þurfa að nýta sér þjónustu þeirra.

Til að auka stöðugleika í dagvistunarmálum og gera samfélagið okkar hér fjölskylduvænna og eftirsóknarverðara að búa í þarf að tryggja börnum dagvistun á leikskólum frá 12 mánaða aldri og búa leikskólana þannig í haginn að þeir séu í stakk búnir til að taka við börnum á þessum aldri. Við þurfum að halda áfram að efla 5 ára deildina, byggja við Eyrarskjól til að koma þar að fleiri börnum og bæta starfsmannastöðuna sem allra fyrst. Ef að rétt verður haldið á málum og samfélagið hér heldur áfram að vaxa með auknum atvinnutækifærum verðum við að gera ráð fyrir enn frekari stækkunum og aukningu plássa.

Sumarlokanir leikskóla þarf að endurskoða og kanna betur hug foreldra í þeim málum. Það er hagur bæði fjölskyldna og vinnuveitenda þeirra að hann sé sveigjanlegur og uppfylli þarfir sem flestra.

Elísabet Samúelsdóttir, skipar 4. sæti Framsóknar í Ísafjarðarbæ.

DEILA