Föstudaginn 4. maí, á milli kl. 13:00 og 14:00 mun Jon Dickson verja meistaraprófsritgerð sína í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Jon rannsakaði möguleikana á því að nota stórþara til að verjast ágangi sjávar í Skutulsfirði. Ritgerðin ber nafnið Creating a Living Breakwater: A viability study of building a kelp reef as a nature based coastal wave defence in Skutulsfjörður, Iceland.
Leiðbeinandi Jons í rannsókninni var dr. Mike Phillips, prófessor við University of Wales Trinity Saint David og stundakennari við Háskólasetur Vestfjarða. Prófdómari er Björn Erlingsson, hafeðilsfræðingur og vísindafélagi við Háskólasetur Vestfjarða.
Útdráttur ritgerðinnar hljómar svo: „Þegar yfirborð sjávar hækkar og vindstyrkur eykst, þá eykst hættan á öldum og flóði við strandlengjuna. Sjóvarnargarðar hafa lengi verið notaðir og eru enn algengir. Þar sem meiri skilningur er nú á breytingum og myndun á grunnsævi er hægt að skipta yfir í náttúrumiðaðar varnir. Aldrei hefur verið reynt að búa til rif með það fyrir augum að rækta þara til að hafa áhrif á styrk og stefnu ölduhreyfinga. Sjávarbotninn norður af Ísafirði var rannsakaður til að kanna gróðurinn og samsetningu hans til að ákveða hvað þyrfti að gera til að þetta sé unnt. Heimildir voru skoðaðar til að kanna hvað gera þyrfti til að auka þéttni í vexti þarans. Hæfilega þéttur þari á hentugu dýpi getur dregið úr öldugangi um allt að 85%, háð þeirri vegalengd sem öldurnar berast um þaraskóginn. Tilraunasvæði í Skutulsfirði var kannað til að greina tegundir þara, þéttni og samsetningu. Greining sýndi að samsetning undirlagsins eða botngerðin var sá þáttur sem helst hamlaði þéttni og dreifingu þarans sem þarna óx, einkum Laminaria hyperborea, sem grær aðallega nálægt fjörunni, á fjögurra til sex metra dýpi. Þéttni þarans var ekki nægjanleg til að draga úr krafti öldunnar og það sýndi sig að gerð gervirifs að meginhluta úr hnullungum, steinvölum og möl myndi gera þaranum kleift að ná hæfilegri þéttni til að draga úr öldugangi um 50%. Þannig að ef komið væri fyrir undirlagi af ákveðinni samsetningu á 4-10 metra dýpi, sem væri hannað til að skapa fótfestu og viðhalda þéttni þaraskógar, væri hægt að draga úr áhrifum öldugangs á norðurströnd Ísafjarðar. Þessi líffræðilega vörn myndi líka minnka viðhald innsiglingarinnar og sjóvarnargarða með því að draga úr niðurbroti strandlengjunnar og flutningi á seti ásamt með eflingu fjörunnar.“
Sæbjörg
sabjorg@gmail.com