Liðið stolt af árangrinum

Lið Grunnskólanna á Suðureyri og í Súðavík.

Úrslitin í Skólahreysti 2018 réðust í gærkvöldi, en tólf skólar börðust um titilinn í ár. Skólarnir sem öttu kappi í úrslitum voru Grunnskóli Hornafjarðar, Grunnskólar Suðureyrar og Súðavíkur, Grunnskóli Húnaþings Vestra, Varmárskóli, Lindaskóli, Varmahlíðarskóli, Holtaskóli, Heiðarskóli, Ölduselsskóli, Laugalækjarskóli, Grunnskólinn Hellu og Brekkuskóli.

Heiðarskóli fór með sigur úr býtum þetta árið eftir skemmtilega og erfiða keppni, enda stóðu lið allra skólanna sig með eindæmum vel. Laugalækjarskóli varð í öðru sæti og Grunnskólinn á Helli í því þriðja. Vestfirðir áttu sitt lið í úrslitum Skólahreystis, en sameinað lið Grunnskólanna á Suðureyri og í Súðavík sigruðu Vestfjarðarriðilinn í undankeppninni í mars síðastliðnum. Liðið lenti í 7. sæti á úrslitakvöldinu.

Liðið skipuðu Flóki Hrafn Markan, Hera Magnea Kristjánsdóttir, Hjördís Harðardóttir, Ragnar Berg Eiríksson, Gabríel Bjarkar Eiríksson og Þórunn Birna Bjarnardóttir.

Ragnar og Hera stóðu sig frábærlega í hraðabrautinni og kláruðu hana á 2 mínútum og 27 sekúndum, en þessi tími tryggði þeim 6. sætið. Hjördís varð í 8. sæti í hreystigripi og náði að hanga í 2 mínútur og 20 sekúndur. Hún varð einnig í 12. sæti í armbeygjukeppninni, þar sem hún náði að gera 29 armbeygjur. Flóki Hrafn tók 40 upphífingar og endaði í 6. sætinu í þeirri keppni. Í dýfunum náði hann 51 og hreppti þar með 2. sætið.

Í samtali við Karlottu Dúfu Markan, annan þjálfara liðsins, segir hún að liðinu líði eins og sigurvegurum. „Liðið er stolt af árangrinum, enda voru þau öll að toppa sjálfa sig. Ferðin er líka búin að vera ævintýri líkust og það er svo gaman að fá að vera fulltrúar Vestfjarða í svona stórri keppni.“

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA