Þýska tónlistarkonan Ulrike Haage með tónleika á Ísafirði

Gestavinnustofur ArtsIceland á Ísafirði, í samstarfi við Tónlistarskóla Ísafjarðar, bjóða til síðdegistónleika í Hömrum föstudaginn næsta, 4. maí kl. 17. Þýska tónlistarkonan Ulrike Haage mun spila brot úr verkum sínum, bæði nýjum verkum sem hún hefur unnið að á Ísafirði, sem og brot úr kvikmyndatónlist sinni. Enginn aðgangseyrir er á tónleikana og allir velkomnir. Léttar veitingar í boði.

Ulrike Haage er tónskáld, píanisti, hljóðlistakona og útvarpsleikritahöfundur, sem býr og starfar í Berlín. Frá árinu 2004 hefur hún gefið út fjórar sóló plötur, þar sem hún blandar saman jazzi, framúrstefnu- og klassískri tónlist. Einnig hefur Ulrike samið tónlist við kvikmyndir, t.d. heimildamyndirnar Zwiebelfische, Gold Rush, Meret Oppenheim, The lost M og kvikmyndina Greetings from Fukushima. Auk þessa hefur Ulrike samið fyrir útvarp. Ulrike hefur unnið til þýsku jazz verðlaunanna og verið verðlaunuð fyrir kvikmyndatónlist sína.

Í fréttatilkynningu vegna viðburðarins kemur fram að á Ísafirði hefur Ulrike stundað rannsóknarstörf ásamt því sem hún hefur verið við tónsmíðar og segir hún Ísland með sína alltumvefjandi og sterku náttúru vera góða staðsetningu til sköpunar. Hún vinnur nú að tónlist fyrir nýjustu heimildarmynd hins þekkta, þýska kvikmyndagerðarmanns Volker Koepp, þar sem Eystrasalt leikur stórt hlutverk og segir Ulrike það hafa verið sannan innblástur að vera umkringd lífinu við sjávarsíðuna á Ísafirði fyrir það. Í tónsmíðunum fæddist hringrás píanóstefa sem endurspegla hugsanir um veröldina í dag, samband okkar við hafið og okkur sjálf. Tónlist Ulrike hefur verið sögð hafa heilandi gæði og vonast hún til að mega færa í heiminn tónlist sem heilar, veitir innblástur og býr til pláss fyrir tengingar hjá áheyrendunum. Tónlistin sem Ulrike vinnur nú að verður gefin út á þessu ári og verður hún tileinkuð Íslandi og öllu fólkinu sem veitti henni brautargengi.

Margrét Lilja

milla@bb.is

 

DEILA