Að ákveða hvað maður vill starfa við er stór ákvörðun. Fyrir nokkrum árum, í lok menntaskólagöngunnar þurfti ég líkt og aðrir jafnaldrar mínir að huga að framtíðinni. Á endanum varð sjávarútvegsfræði á Akureyri fyrir valinu, enda fæddur og uppalinn á Ísafirði þar sem aðal atvinnugrein sveitarfélagsins hefur verið sjávarútvegur. Stefnan var alltaf sú að koma aftur heim og leyfa börnunum og fjölskyldu að njóta sömu forréttinda og ég fékk þegar ég var að alast upp. Hins vegar er ekki sjálfgefið að geta látið slíkt ganga upp en við sáum ákveðin tækifæri og höfðum trú á staðnum sem varð til þess að við fjölskyldan fluttumst aftur vestur.
Tækifærin
Atvinnulífið hjá okkur byggist að mestu á þremur þáttum í dag, sjávarútvegi, ferðaþjónustu og þjónustustörfum við íbúa. Í minni grein, sjávarútveginum, hefur gróskan verið meiri en í mörg ár. Nýsköpunarfyrirtækið Kerecis er í miklum vexti, hátæknifyrirtækið Skaginn 3X á góðri leið að verða eitt þekktasta tæknifyrirtæki tengt matvælaiðnaði í heiminum og HG að endurnýja togara og hyggjast byggja nýtt frystihús. Ferðaþjónustan hefur svo vaxið og mörg tækifæri eru innan hennar þar sem við ættum að einblína á sérstöðu svæðisins.
Stærsta einstaka tækifærið og ný stoð undir atvinnuvegina okkar er hins vegar fiskeldi. Í Dýrafirði einum verður hægt að ala um 10.000 tonn af laxi á ári, til þess að setja þetta í samhengi er verð á slægðum laxi gróflega um þrefalt hærra en verð á slægðum þorski. Í Dýrafirði einum verða því til verðmæti sem jafngilda 30 þúsund tonnum af slægðum þorski! Við erum með lifandi dæmi á suðurfjörðunum um þau stakkaskipti sem fiskeldið hefur valdið, þorpin sem áður voru í miklum vandræðum eru farin að eflast og vaxa.
Fiskeldi í Ísafjarðardjúpi mun sömuleiðis leiða til mikillar fólksfjölgunar í bæjarfélaginu og á nærsvæði þess, enda gerir varfærið mat ráð fyrir eldi upp á 30.000 tonna burðarþol. Undanfarið ár hafa hins vegar orðið ítrekuð áföll í uppbyggingu fiskeldis í Djúpinu. Þá skiptir höfuðmáli að hafa bæjaryfirvöld sem setja sig vel inn í málin og berjast fyrir hagsmunum svæðisins á öllum vígstöðvum. Fiskeldisfundur með Hafró um miðjan apríl sl. sýndi að þrátt fyrir að fiskeldisfyrirtækin eru tilbúinn að leggja mikið á sig til þess að koma til móts við umhverfissjónarmið, koma enn loðin svör frá stjórnvöldum um hvenær sé hægt að fara af stað.
Í þessu ástandi verða bæjaryfirvöld í Ísafjarðarbæ, sem fulltrúar stærsta sveitarfélagsins á Vestfjörðum að hafa forystu um að berjast fyrir hagsmunum svæðisins.
Áskoranir
En með uppbyggingu fylgja áskoranir. Í Ísafjarðarbæ er lítið um laust húsnæði og úrræði fyrir ungar fjöldskyldur daprar varðandi leikskólamál. Eins og staðan er í dag er varla hægt að segja að ungar fjölskyldur geti flutt hingað vestur og gengið beint inn í samfélagið og komið sér á vinnumarkaðinn einfaldlega vegna húsnæðisskorts. Mikilvægt er að bæjaryfirvöld bregðist við þeim vanda, til dæmis með því að gefa afslátt af gatnagerðargjöldum líkt og oddviti Framsóknar kom í gegn síðastliðið sumar.
Við þurfum að tryggja að börn komist inn á leikskóla fljótt eftir að fæðingarorlofi foreldra ljúki og koma í veg fyrir að fólk þurfi að grípa til þess ráðs að þurfa að keyra með börnin sín á leikskóla utan síns bæjarkjarna líkt og margar fjölskyldur hafa þurft að gera. Það þarf að vera krafa bæjarbúa að fjölga skuli leikskólaplássi í Ísafjarðarbæ og koma á laggirnar ungbarnaleikskóla og flýta því að foreldrar ungra barna komist út á vinnumarkaðinn.
Það fylgja því ótrúlegir kostir að búa hér en við verðum samt sem áður að vera samkeppnishæf varðandi þjónustu og kröfur íbúa, sama hvort það sé í skóla, íþrótta eða húsnæðismálum.
Framtíðin er fyrir vestan
Fyrir þremur árum sáum við Heba Dís tækifæri í að koma aftur heim og vera hluti af þeirri uppbyggingu sem er að fara af stað eftir langvarandi varnarbaráttu byggðanna undanfarin ár. Með trú á svæðinu og samfélaginu keyptum við okkur gamalt hús sem við höfum verið að gera upp. Nálægðin við fjöllin, umhverfið, lognið, nálægðin í frístundir, fólkið og frelsið eru ótvíræðir kostir þess að búa hér.
En til þess að geta notið allra þessa kosta þarf atvinnu. Þess vegna verðum við að tryggja umhverfi fyrirtækjanna, frumkvöðlanna okkar og einstaklinga sem eru að byggja hér upp samfélagið. Ég hef fulla trú á að með öflugri baráttu bæjarins í samvinnu við önnur sveitarfélög megi tryggja atvinnuuppbyggingu, m.a. fiskeldi, sem gerir okkur fært að ráðast í stórsókn á öðrum sviðum samfélagsins og byggja upp bæjina innan Ísafjarðarbæjar.
Kæru frambjóðendur og íbúar. Setjum markið á að horfa lengra til framtíðar en einungis eitt kjörtímabil og stefnum á að byggja hér upp barnvænt samfélag sem sé eftirsóknarvert og geti leitt okkur inn í nýja tíma með ört fjölgandi fólki og blómstrandi mannlífi.
Ég ætla allavega að leyfa mér að vera bjartsýnn og segja að framtíðin sé fyrir vestan.
Anton Helgi Guðjónsson, sjávarútvegsfræðingur og skipa 5. sæti lista Framsóknar í Ísafjarðarbæ