„Hægt að umbreyta, þó það taki tíma“

Það er hlýleg og vingjarnleg kona sem svarar í símann þegar blaðamaður BB hefur samband. Röddin skýr og orðin vel valin. Kristín B. Albertsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, er á leiðinni til Patreksfjarðar og nýtir tímann vel í þau verkefni sem liggja fyrir, enda upptekin kona. Kristín rekur ættir sínar austur á firði, á Fárskrúðsfjörð, en býr núna á Flateyri. Búseta í kyrrð og fegurð fjarða og fjalla virðist því eiga vel við hana.

Það fór eflaust ekki framhjá mörgum þegar fréttir bárust af uppsögnum og erfiðum starfsmannamálum hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða nýverið. Sumum þótti þögnin heldur mikil frá stofnuninni en Kristín var erlendis og að miklu leyti sambandslaus þegar fréttirnar fóru sem hæst. „Því miður var ekki allt rétt sem kom fram í fjölmiðlum og ýmislegt sem átti ekki við rök að styðjast,“ segir Kristín og bætir við að það sé leiðinlegt þegar það gerist. „Ég var í leyfi yfir páskana erlendis, þar sem ég dvaldi á friðsælum stað í jóganámi sem ég legg stund á. Ég fékk símtal frá kollega mínum sem spurði hvort ég hefði heyt fréttirnar á RÚV. Það hafði ég ekki, en náði að komast inn á netið og hringdi í kjölfarið í fréttamann RÚV sem uppfærði fréttina. Í fréttinni hljómaði þetta eins og hópuppsagnir og að eitthvert upplausnarástand væri í gangi, sem var alls ekki. Að vísu var óheppilegt að það skyldi hittast þannig á að þrír stjórnendur segðu upp á sama tíma, en það var þó tilviljun ein sem réði því, en ekki að það væri verið að flýja eitthvert ástand. Hver uppsögnin var sjálfstæð og mismunandi ástæður þar að baki.“

Nú hljóta talsverðar breytingar að vera í vændum hjá Heilbrigðisstofnuninni? „Það passar, hér munu verða talsverðar breytingar á mannahaldi í stjórnunarstöðum.“ Kristín segir að nú þegar sé búið að ráða í nokkrar stöður. „Það var einmitt verið að ganga frá ráðningu í starf yfirmatráðs HVest hér á Ísafirði. Gestur Ívar Elíasson, sem gegnt hefur starfi aðstoðarmatráðs síðastliðin 16 ár var ráðinn í starfið frá og með 1. ágúst næstkomandi. Birgir Jónsson lætur þá af störfum sem yfirmatráður sökum aldurs, en hann hefur verið yfirmatráður HVest í 21 ár.

Þá er nýlega búið að ráða nýjan framkvæmdastjóra lækninga, sem og mannauðs- og rekstrarstjóra.“ Kristín segir að nýr framkvæmdastjóri lækninga hafi verið ráðinn frá og með 1. september næstkomandi, en það er Andri Konráðsson, sérfræðingur í almennum skurðlækningum. „Andri hefur starfað sem skurðlæknir í Stavanger í Noregi síðastliðin 10 ár, en hann hefur einnig gegnt starfi yfirlæknis þar síðustu tæp 2 ár. Hann mun því starfa sem skurðlæknir samhliða starfi framkvæmdastjóra lækninga.“ Kristín nefnir að það sé mikilvægt og kærkomið fyrir stofnunina að fá þessa kjölfestu í sjúkrahúsþjónustuna fyrir vestan, en forsenda þess að hægt sé að halda úti fæðingarþjónustu á Ísafirði er að hér sé starfandi skurðlæknir. Einhverjir hér fyrir vestan muna kannski eftir Andra, en hann starfaði sem læknir við Heilbrigðisstofnunina á árunum 2001 – 2003. Hallgrímur Kjartansson, heilsugæslulæknir, hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra lækninga frá sameiningu stofnunarinnar í árslok 2014 og mun gegna stöðunni þar til Andri tekur við. „Hallgrímur mun þá halda áfram sem yfirlæknir heilsugæslu HVest, en hann sinnti þeirri stöðu áður samhliða starfi framkvæmdastjóra lækninga þar til síðastliðið haust, er María Ólafsdóttir heilsugæslulæknir tók við því starfi tímabundið til eins árs.“

Kristín talar um að svo sé einnig búið að ráða mannauðs- og rekstrarstjóra frá og með miðjum maí, en eins og áður hefur komið fram þurfti nýráðin fráfarandi mannauðsstjóri að hætta vegna fjölskylduaðstæðna. „Hjalti Sölvason tekur við starfinu,“ segir Kristín, „en hann var meðal umsækjenda þegar starfið var auglýst í nóvember síðastliðnum. Til að byrja með verður hann ráðinn til eins árs. Hjalti er með MBA gráðu í viðskiptafræði og mikla reynslu úr atvinnulífinu, bæði af rekstri, stjórnun og mannauðsmálum.“ Blaðamaður rekur augun í að þarna sé verið að ráða í nýtt starf, það er ekki bara mannauðsstjóra heldur líka rekstrarstjóra, hvað kemur til? „Já við ákváðum að gera tilraun með þetta, þar sem við stóðum frammi fyrir mannabreytingum. Hér við stofnunina hefur ekki verið starfandi mannauðsstjóri áður, fyrir utan síðastliðna tvo mánuði.“ Segir Kristín og bendir á að mannauðsmálin hafi til þessa alltaf verið á herðum annarra stjórnenda. „Það hefur heldur ekki verið starfandi rekstrarstjóri hér áður, en rekstrarstjóri er jafnan yfirmaður stoðdeilda, sem til ársins 2017 heyrðu undir fjármálastjóra. Ég tel hins vegar æskilegt að svo sé ekki og tel að þessi tvö störf, mannauðsstjóri og rekstrarstjóri, fari vel saman, þar sem stór hluti af störfum mannauðsstjóra lúta að kjaramálum starfsmanna, sem er einn stærsti þáttur alls rekstrarkostnaðar. Svo hægt sé að tengja þessi hlutverk mannauðs- og rekstrarstjóra, þarf viðkomandi að hafa til að bera þekkingu á hvoru tveggja, þ.e. á mannauðsmálum og rekstri og þar kemur Hjalti sterkur inn. Við ætlum að sjá hvernig þetta reynist og því er ráðningin til að byrja með í eitt ár.“ Kristín hljómar glöð þegar hún bætir við að það verði spennandi að sjá hvernig þessa staða kemur út.

Nýráðinn fjármálstjóri hætti störfum nú í byrjun apríl og segir Kristín að nú leiti þau logandi ljósi að fjármálasérfræðingi í tímabundið starf, til þess að ljúka við það verkefni sem hafið er, að koma verkferlum í bókhaldi og rekstri í gott horf. Nýr forstjóri mun þá hafa tækifæri til þess að ráða inn nýjan fjármálastjóra þegar þar að kemur.

En aftur að Kristínu, nú er hún ein þeirra sem er að hætta hjá HVest. Hvernig hefur starfið verið? „Ég hef ákveðið að segja skilið við heilbrigðisgeirann í bili, en ég hef gegnt forstjórastarfi heilbrigðisstofnana í 5 ár.“ Þar á Kristín einnig við starf sitt á Heilbrigðisstofnun Austurlands, en hún vann þar áður en hún tók við á HVest árið 2016. „Þetta hefur verið lærdómsríkur tími þar sem starfið hefur verið hvort tveggja í senn ákaflega annasamt og krefjandi. Verkefnin hafa verið mörg og vandasöm en hér á HVest blasti við margþættur vandi er ég tók við. Uppsafnaður rekstrarhalli, samskiptaerfiðleikar og ýmislegt annað sem var í ólestri.“ Kristín talar um að vinnudagarnir hafi verið langir flesta daga frá upphafi, enda hefur margt áunnist bæði rekstrarlega og mönnunarlega. „Nú er rekstrarafgangur eftir fyrsta ársfjórðunginn og bókhaldið og launavinnsla eru óðum að komast í betra horf. Það eru þó enn mörg ókláruð verkefni, sem verða að bíða nýs forstjóra, en ég geri ráð fyrir að vinna af fullum krafti út júní.“

Ýmsar sögusagnir hafa gengið um lélegan starfsanda HVest eins og fór mikinn í nýlegum fréttum um stofnunina. Hvað segir Kristín um það? „Erfiður starfsandi og samskiptavandi virðist lengi hafa loðað við vinnustaðinn og það er ekki auðvelt að uppræta slíkt. Ég hef átt marga samskiptafundi hér og sumir hafa skilað árangri en aðrir ekki. Stundum er talað um þegar andinn er slæmur á vinnustað að þar séu einhver skemmd epli og það er því miður svo. Það þarf ekki mörg skemmd epli í körfunni til að eitra út frá sér, stundum er eitt nóg. Ég finn ennþá fyrir tilteknu óöryggi meðal starfsmanna, sem líklega er afleiðing af langvarandi samskiptavanda. Slíkt óöryggi og vanlíðan getur birst í ákveðnum hroka og virðingarleysi í samskiptum.“ Kristín segir að fólk þurfi að læra að líta í eigin barm, fara í naflaskoðun með sjálft sig og læra að finna sinn innri styrk. „Ég held að það sé varanlegasta og farsælasta lausnin og sú sem ég hef rætt á starfsmannafundum með mínu fólki. Mikilvægt er að hver og einn læri að axla ábyrgð á eigin líðan. Við höfum alltaf val um eigin viðbrögð og í hvaða ljósi við ákveðum að sjá annað fólk, hluti eða aðstæður. Það eykur vellíðan þegar maður ákveður að sjá það jákvæða í stað þess neikvæða, leitast við að finna lausnir í stað þess að einblýna á verkefnið sem vandamál. Það að bera ábyrgð á eigin líðan og hegðan er að vanda það sem maður hugsar, segir og gerir, hvað maður sendir frá sér og jafnframt að bera ábyrgð á því hvernig maður bregst við umhverfinu.“ Kristín talar um að það sem henni hefur fundist hvað mest sláandi af því sem hún hefur orðið áskynja varðandi samskipti, bæði innan og utan stofnunarinnar, sé kjaftagangur og stundum illt umtal. „Slíkt er löstur á vinnustað og alls staðar annarsstaðar. Sá ljóður lognast sjálfkrafa smám saman útaf þegar maður lærir að axla ábyrgð á eigin hegðan. Til þess þarf maður stöðugt að vera meðvitaður og vanda sig í hverju skrefi. Það getur tekið tíma að slípa sig til og tileinka sér bætta háttsemi, en við getum það öll og það er alltaf á ábyrgð hvers og eins að breyta sjálfum sér. Maður breytir ekki öðrum.“

Kristín siglir nú á ný mið en hún tekur við sem framkvæmdastjóri Sólheima í Grímsnesi í ágúst næstkomandi. „Fljótlega eftir áramótin tók ég þá ákvörðun með sjálfri mér, að þetta væri orðið gott, nú ætlaði ég ekki að slíta mér út í þessu starfi mikið lengur, hvað sem tæki við.“ Kristín segir að í febrúar hafi hún svo rekist á auglýsingu um starf sem heillaði. „Ég sótti um og var svo boðið starfið í lok mars. Ég baðst því lausnar frá embættinu í ráðuneytinu og staðan mín hjá HVest hefur verið auglýst.“ Kristín segist hlakka til að takast á við nýja vinnu. „Umsóknarfrestur um starf forstjóra hjá HVest rennur út 7. maí næstkomandi og eflaust munu einhverjir hæfir umsækjendur sækja um, það verður spennandi að sjá hver tekur við.“

Margrét Lilja
milla@bb.is

DEILA