Keppni lauk í tveimur greinum í Fossavatnsgöngunni í gær, fimmtudag. Úrslit í 25 km skíðaskautun lauk með sigri Ilia Chernousov frá Rússlandi, fæddur 1986, og fór á tímanum 01:05:34. Í öðru sæti var Íslendingurinn Snorri Eyþór Einarsson, fæddur 1986, en hann fór á tímanum 01:10:02 og í þriðja sæti var Alexender Panzhinskiy frá Rússlandi, fæddur 1989, á tímanum 01:15:38.
Í fimm km göngu í karlaflokki sigraði Ástmar Helgi Kristinsson, fæddur 2005, en hann var á tímanum 00:20:53. Í öðru sæti var Ás Teitur Andrason, fæddur 2005, með tímann 00:22:47 og í þriðja sæti var Óðinn Andrason, fæddur 2003, sem fór á tímanum 00:22:49.
Í fimm km göngu í kvennaflokki sigraði Auður Hrönn Freysdóttir, fædd 1966, en hún fór á tímanum 00:27:17. Í öðru sæti var Gunnhildur Gestsdóttir, fædd 1961, á tímanum 00:30:36 og í þriðja sæti var Sigrún María Árnadóttir, fædd 1975, á tímanum 00:33:09
Engin keppni er í dag föstudag, en á morgun verður keppt í hefðbundinni göngu í 50 km, 25 km og 12,5 km. Veðurspáin er eins og best verður á kosið, snjóar í kvöld, sem tryggir gott færi á morgun, en svo spáir glampandi sól og blíðu. Búast má því við bestu aðstæðum fyrir keppendur á morgun.
Það eru einmitt slíkir dagar sem gera Fossavatnsgönguna einstaka. Á stórmótum erlendis eru keppnir oftar en ekki langt upp í fjöllum, jafnvel með skógi vöxnum hlíðum og því er útsýni takmarkað. Á morgun má hins vegar búast við fallegu útsýni fyrir keppendur og gesti, þar sem fegurð Skutulsfjarðar og þorpsins á eyrinni blasir við. Það er sjaldgæft að hafa slíkt í keppnum sem þessum, þar sem fegurð fjalla og fjarða blasa við.
Gunnar