Fjöldi keppenda frá Ísafirði á Andrésar Andar leikunum

Mynd: Elsa Magnúsdóttir.

Þessa dagana fara fram Andrésar Andar leikarnir á Akureyri. Fjöldinn allur af keppendum frá Ísafirði og nærsveitum er staddur þar, eða alls 72 keppendur á aldrinum 5-16 ára. Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, formaður Skíðafélags Ísfirðinga, sagði í samtali við BB að börnin væru að keppa í skíðagöngu, alpagreinum og á brettum og allt hefði gengið mjög vel. „Dagurinn í gær var rosalega góður, það var gott veður, krakkarnir ánægðir og þetta er mjög jákvæður, glaður og samheldinn hópur,“ sagði Vala eins og hún er kölluð. Leikarnir snúast miklu meira um upplifun og sköpun minninga fyrir börnin heldur en sjálfa keppnina um gullverðlaun, þó verðlaun sýni auðvitað góðan árangur þeirra sem til vinna.

„Þetta er stór hópur að vestan sem ferðast og gistir saman,“ segir Vala. „Sumir eru auðvitað hjá vinum eða ættingjum en við höldum samt hópinn. Fórum til dæmis öll saman út að borða í gær í boði Fossavatnsgöngunnar og hittumst á verðlaunaafhendingunum á hverju kvöldi. Þetta er náttúrulega stærsti viðburður barnanna, þau hafa stefnt að þessu í allan vetur og safnað fyrir ferðinni. Bæjarbúar hafa líka stutt vel við bakið á krökkunum með því að kaupa túlípana og ýmsan annan varning og við viljum þakka kærlega fyrir það,“ segir Vala að lokum frá blíðunni í Hlíðarfjalli á Akureyi.

 

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

Myndir: Elsa Magnúsdóttir og Edda María Hagalín

DEILA