Húsfylli á íbúafundi um fiskeldi í Bolungarvík

Húsfylli var á íbúafundi um fiskeldi í Bolungarvík þar sem lofað var nýju áhættumati þegar sól stæði hæst á lofti.

Fjölmennur íbúafundur um fiskeldi var haldinn í Bolungarvík 17. apríl, en samkvæmt heimildum sóttu um 250 til 300 manns fundinn. Það var atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sem boðaði til fundarins. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, setti fundinn, en fundarstóri var Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur.

Við setningu fundarins, talaði sjávarútvegsráðherra um að með fundinum vildi hann sem ábyrgðarmaður málaflokksins fá fram sjónarmið íbúa við djúpið varðandi laxeldi.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar og Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri fiskeldis- og fiskiræktarsviðs Hafrannsóknarstofnunar, fluttu erindi á fundinum í kjölfarið. Sigurður Guðjónsson talaði um stöðu laxeldis og aðkomu stofnunarinnar að eldismálum sem rannsóknarstofnunar, en Ragnar Jóhannsson flutti framsögu um fræðilegan grunn áhættumats.

Eftir framsögurnar sköpuðust líflegar umræður meðal fundargesta. Meðal þess sem fram kom var óánægja fólks um að hagsmunir eigenda laxveiðiáa og laxveiðimanna væru teknir framyfir hagsmuni íbúa. Í ljósi eðlilegra uppbyggingaráforma ítrekuðu fundarmenn að Hafrannsóknarstofnun þyrfi að vera með einhverja útgefna tímalínu um hvenær áhættumatið verður endumetið, sem leiði þá til þess að djúpið opni mögulega. Svörin frá Sigurði Guðjónssyni, forstjóra Hafrannsóknarstofnunar, voru að „mögulegt væri að áhættumatið yrði endurmetið með hækkandi sól“, sem gæti skilist sem svo að þess beri að vænta í sumar, kjósi menn bjartsýnina. Hvort endurmat áhættumatsins þýðir að Ísafjarðardjúp myndi opna fyrir laxeldi, vildu hvorki Sigurður né Ragnar tjá sig um. Enn ríkir því óvissa um framtíð laxeldis við Ísafjarðardjúp.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA