Orkubú Vestfjarða stefnir Ísafjarðarbæ og AB-Fasteignum ehf.

Í fréttatilkynningu sem Orkubú Vestfjarða sendi frá sér rétt í þessu, kemur fram að Orkubúið hafi stefnt Ísafjarðarbæ og AB-Fasteignum ehf. fyrir Héraðsdóm Vestfjarða og krefjist þess að samningur þessara aðila um rannsóknar- og virkjunarleyfi í Úlfsá á Dagverðardal frá 24. janúar 2018 verði ógiltur. Einnig er þess krafist að staðfest verði fyrir dómi að allur réttur til virkjunar fallvatns í Úlfsá sé eign Orkubús Vestfjarða.

Í samtali BB við Elías Jónatansson, orkubússtjóra, kemur fram að eftir að reynt hafi verið að fara aðrar leiðir í þessu máli hafi ekki annað verið í stöðunni en að fara með málið fyrir dómstóla. „Við stjórnarformaður Orkubúsins fórum á fund Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, og Brynjars Þórs Jónassonar, sviðsstjóra umhverfis og eignasviðs. Eftir þann fund var það mat okkar að niðurstaða kæmist ekki á málið nema fyrir dómi. Þetta var rætt í stjórn Orkubúsins, sem komst að þeirri niðurstöðu að stefna Ísafjarðarbæ og AB-fasteignum ehf.“

Fram kemur í fréttatilkynningunni að í stefnunni sé vísað til þess að við stofnun Orkubúsins fyrir 40 árum hafi verið lagðar inn eignir RARIK á Vestfjörðum, sem og rafveitur og virkjanir sem sveitarfélögin ráku. Sveitarfélögin lögðu einnig inn í félagið vatnsréttindi sem þau áttu, þekkt og óþekkt á þessum tíma. Með þessu var verið að tryggja til framtíðar getu félagsins til raforkuframleiðslu.

Í samningi frá 1. desember 1978 afsalaði Bæjarstjórn Ísafjarðar sér öllum eigum Rafveitu Ísafjarðar auk annarra réttinda til Orkubúsins. Þrátt fyrir það undirritar Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fyrrnefndan samning um rannsóknar- og virkjunarleyfi í Úlfsá til AB-Fasteigna ehf.

Samkvæmt tilkynningunni brást Orkubúið strax við samningi Ísafjarðarbæjar og AB-Fasteigna ehf. með bréfi til bæjarstjórnar. Þar sem þau samskipti báru ekki árangur sá Orkubúið ekki annan kost í stöðunni en að stefna Ísafjarðarbæ og AB-Fasteignum ehf. til að tryggja rétt sinn.

Forsenda fyrir rekstri Orkubús Vestfjarða byggir á því að virkjun þess vatnsafls sem orkubúið á verði á þess höndum. Það liggur fyrir að virkjun í Úlfsá er fjárhagslega fýsileg og því er það skýlaust brot á stjórnarskrárvörðum rétti Orkubúsins að Ísafjarðarbær leggi eign Orkubúsins undir sig með þeim hætti sem gert var í samningnum milli Ísafjarðarbæjar og AB-Fasteigna ehf.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, sagði í samtali við BB að hann væri reyndar ekki búin að sjá stefnuna en teldi að úr þessu yrði ekki skorið nema fyrir dómstólum. „Ég tel einsýnt að Ísafjarðarbær sé með unnið mál.“

Hér má sjá fréttatilkynningu Orkubús Vestfjarða í heild sinni.

Margrét Lilja

milla@bb.is

 

DEILA