Heilbrigðisþjónusta í hrakviðri

Guðjón S. Brjánsson

Nýleg skýrsla Ríkisendurskoðunar, Sjúkratryggingar Íslands sem kaupandi heilbrigðisþjónustu er þungur áfellisdómur um hvernig til hefur tekist frá því að þessi
stofnun hóf starfsemi sína árið 2008. Einn hluti þess er hversu hagsmunir íbúa á
landsbyggðinni hafa verið vanræktir.

Veikburða stofnun

Skýrslan staðfestir að Sjúkratryggingar Íslands er faglega og rekstrarlega veikburða stofnun og hefur aldrei staðið undir eðlilegum væntingum eða náð að gegna því hlutverki sem henni var ætlað. Þetta hefur bitnað hvað harðast á landsbyggðinni. Ekki eru gerðir samningar um heilbrigðisþjónustu á grundvelli heildstæðra og ítarlegra þarfa, heldur hafa þrýstihópar og sérhagsmunir sterk ítök. Andi laga um sjúkratryggingar nr. 112/2008 hefur verið hunsaður en með þeim lögum átti að hverfa frá því að semja við fagfélög eða stéttarfélög um heilbrigðisþjónustu. Þannig er Læknafélag Reykjavíkur enn einn stærsti samningsaðili við Sjúkratryggingar Íslands. Það þarf ekki að fjölyrða um það hvar félagsmenn í því félagi starfa. Landsbyggðin er afgangs og tilviljunum háð hvort, hvaða og hvernig sérfræðiþjónusta er þar í boði. Líklegast er að hún byggist á persónulegum tengslum fagfólks eða hollustu í garð íbúa á landsbyggðinni en ekki á grundvelli þarfagreiningar í viðkomandi heilbrigðisumdæmi. Það skortir heildar stefnumótun fyrir landið allt og brýnt að núverandi heilbrigðisráðherra vinni ötullega að því verkefni.

Ójafn leikur

Skýrslan reifar í nokkrum atriðum hvernig opinberar heilbrigðisstofnanir hafa um langt árabil verið fjármagnaðar og þar er ólíku saman að jafna ef horft er til sjálfstætt starfandi sérfræðinga eða einkarekinna heilbrigðisstöðva. Opinberar stofnanir eru á föstum fjárlögum, fá eina fasta upphæð til rekstrar í upphafi árs og hún stendur óhögguð, nánast sama á hverju gengur. Afdrifaríkar sveiflur í starfseminni fást seint eða ekki leiðréttar sem leitt hefur stofnanir í stórfelldan vanda og um það eru mýmörg dæmi. Öðru máli gegnir hins vegar um þá aðila sem ná samningum við Sjúkratryggingar Íslands þar sem framleiðslutengd fjármögnun gildir. Þar er greitt jafnóðum samkvæmt verðlista fyrir öll verk sem unnin eru. Þetta kerfi hefur nú reyndar verið tekið upp í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu og stefnt er að því að það verði að hluta til tekið upp á Landspítala á þessu ári. Væntingar eru um að þetta breyti miklu. Krafa landsbyggðarfólks er sú að jafnræði ríki á þessu sviði og að ekki síðri áhersla verði lögð á uppbyggingu fjölbreytilegrar þjónustu á landsbyggðinni en á það hefur verulega skort.

Jafnræði – framtíðarsýn

Kostnaður Sjúkratrygginga Íslands vegna sérfræðiþjónustu hefur aukist gríðarlega á
undanförnum árum, langt umfram aðra þætti og hlutfallslega yfirgnæfandi mest á
höfuðborgarsvæðinu, það sýna tölulegar upplýsingar og um það verður ekki deilt. Á sama tíma hafa hins vegar opinberar heilbrigðisstofnanir um allt land verið sveltar, rúnar fé, fagfólki og framtíðarsýn. Það hefur stöðugt hallað undan fæti á landsbyggðinni og æ erfiðara hefur reynst að halda uppi grunnþjónustu í nærsamfélögum. Úrlausn hins opinbera hefur falist í því að bjóða íbúum víðast hvar að koma til Reykjavíkur og njóta þjónustunnar þar. Þetta á jafnt við um fæðingarþjónustu, sjúkra- og iðjuþjálfun, geðheilbrigðisþjónustu, barnalækningar, kvensjúkdóma og jafnvel tannlækningar og fleiri þætti. Þessu fylgir umtalsverður kostnaður, frátafir frá vinnu, ferðalög og óþægindi fyrir fjölskyldur og leggst þungt á marga. Fjárhagsleg fyrirgreiðsla er ekki í námunda við kostnað. Þarfir landsbyggðar hafa ekki verið greindar varðandi þessi atriði og Sjúkratryggingar Íslands yppta öxlum og nálgast viðfangsefnið því miður ekki með faglegum eða lausnamiðuðum hætti.

Hugur ráðherra

Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir hefur viðurkennt að það ríki talsverður glundroði í kerfinu og líklega er hann hvergi jafn sláandi og gagnvart Sjúkratryggingum Íslands. En stofnuninni er þrátt fyrir allt nokkur vorkunn. Leiðarljós í starfsemi Sjúkratrygginga Íslands ætti auðvitað að vera skýr stefna heilbrigðisráðherra um heilbrigðisþjónustu. Gallinn er bara sá að heildstæð stefna í þeim anda sem lög um heilbrigðisþjónustu kveða á um og lög um sjúkratryggingar vísa til hefur hreinlega aldrei verið sett fram, svo ekki er von á góðu. Heilbrigðisráðherra hefur lýst því yfir að hún muni beita sér fyrir stefnumörkun í sátt við þing og þjóð, sem er mikil áskorun en grundvallaratriði. Í því mun hún eiga stuðning jafnaðarmanna um allt land vísan sem tala fyrir öguðu frjálsræði, skilvirkni í kerfinu og almennt um hagsmuni venjulegs launafólks. Sáttin mun hins vegar aðeins nást, að horft verði með sanngirni til allra landsmanna þegar heilbrigðisþjónustan verður reist úr þeirri öskustó sem hún hefur víða verið í á landsbyggðinni.

Guðjón S. Brjánsson
alþingismaður

DEILA