„Raforkukerfi sem treystir á díselvélar er ekki kerfi til framtíðar“

Á heimsíðu Vesturverks má lesa samantekt þeirra úr skýrslum sem Háskólinn á Akureyri vann fyrir fyrirtækið um mat á samfélagslegum áhrifum Hvalárvirkjunar á Vestfirði. Þar segir meðal annars: „Hvalárvirkjun hefur mikil áhrif á raforkukerfið á Vestfjarðarkjálkanum. Í raun má segja að virkjunin umbylti kerfinu, því með henni kemur mikil orkuframleiðsla inn á það innan Vestfjarða. Í fyrsta lagi mun virkjunin væntanlega leiða af sér þriggja fasa rafmagn og tvöfalda tengingu í Árneshreppi. Ennfremur verður Vestfjarðakjálkinn nettó úflytjandi raforku en ekki innflytjandi.“ Á heimasíðunni stendur einnig skrifað að RHA hafi áður gefið út sambærilega skýrslu, sem unnin var að beiðni Vesturverks, og fjallar um samfélagsleg áhrif virkjanaframkvæmda í Árneshreppi. Þar er vitnað í niðurstöður skýrslunnar og sagt: „Mestu áhrif virkjunarinnar á raforkukerfið á Vestfjarðakjálkanum eru líklega þau að verkefnið, sem felst í því að koma á tvöfaldri tengingu í flutningskerfinu í öllum landshlutanum, verður viðráðanlegt. Einungis þarf eina línu til viðbótar til að næstum allt flutningskerfið verði með tvöfalda tengingu. Sterkasta lokaskrefið væri lína innst úr Ísafjarðardjúpi út til Ísafjarðar eða í Breiðadal í Önundarfirði. Án Hvalárvirkjunar er tvöföld tenging raforkukerfisins á Vestfjarðakjálkanum mjög stórt verkefni.“

Raforkumál á Vestfjörðum standa ekki nógu vel, eins og allir sem til þekkja vita. Í skýrslunni kemur fram að rafmagn inn á kjálkann komi frá Landsneti og sé flutt með Vesturlínu úr Hrútatungu í Mjólká en það er einföld tenging og afhendingaröryggi raforku í landshlutanum sé því lélegt. „Út frá Vesturlínu eru einnig einfaldar tengingar svo sem til Stranda, norðanverðra Vestfjarða og sunnanverðra Vestfjarða. Það er því býsna langt frá því að afhendingaröryggið sem kallast N-1 sé á Vestfjarðakjálkanum. N-1 þýðir að einhver ein lína megi rofna án þess að það hafi áhrif á afhendingu.“

Áfram segir í skýrslunni: „Mikill munur er á raforkunotkun eftir árstíðum vegna húshitunar með rafmagni. Til að bæta afhendingaröryggi hafa verið settar upp dísel-varaaflstöðvar víða. Sú nýjasta og stærsta er 10 MW og er í Bolungarvík. Stöðin bætti ástandið mikið, sérstaklega á norðanverðum Vestfjörðum. Raforkukerfi sem treystir á díselvélar er hins vegar ekki kerfi til framtíðar og það er ekki í stakk búið að taka við mikilli viðbótarnotkun rafmagns. Kerfið eins og það er heftir því atvinnulíf og sérstaklega framþróun þess. Því er ljóst að bæta þarf bæði flutningskerfið og dreifikerfið á Vestfjarðarkjálkanum öllum.“

Skýrslurnar báðar má nálgast í heild sinni hér:

Mat á samfélagsáhrifum Hvalárvirkjunar á Vestfjörðum

Mat á samfélagsáhrifum Hvalárvirkjunar í Árneshreppi

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

 

 

DEILA