Aukin áhersla í samgöngu- og byggðamálum

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður NV kjördæmis.

Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að ráðast verði í sérstakt átak í samgönguframkvæmdum á árunum 2019-2021. Samtals 16,5 ma.kr. fara í framkvæmdirnar og verður áhersla lögð á að samgöngur verði greiðar og öruggar allt árið í þeim verkefnum sem unnin verða. Strax á fyrsta ári áætlunarinnar er aukningin til málefnasviðsins 4,3 ma.kr. frá fjárlögum 2018. Innan þess ramma er að klára Dýrafjarðargöng og tvöfalda Kjalarnesveg. Unnið er að gerð samgönguáætlunar sem á að leggja fyrir í haust.

Þótt vel sé í lagt þá eru verkefnin mörg. Við verðum að sjá brýn verkefni sett í forgang eins og veg um Gufudalssveitina og uppbyggingu Dynjandisheiðar. Verkefni í samgöngumálum á sunnanverðum Vestfjörðum snúast um svo miklu meira en að komast á góðum tíma út af svæðinu heldur tilheyra vegirnir fortíðinni og styðja enganveginn við nútímaatvinnuvegi og lífshætti íbúana. Það er vonandi að vinna við hönnun og val á vegstæði verði hraðað svo hægt sé að koma þeim í framkvæmd. Framkvæmdir í Gufudalssveit þurfa að verða að veruleika innan þessa árs. Umferð á aðeins eftir að aukast og ef spár ganga eftir mun ferðamönnum halda áfram að fjölga. Það kallar á uppbygginu og viðhald vega og við verðum að vera viðbúin því.

Metnaðarfull byggðaáætlun

Nú á vorþingi verður lögð fram byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024. Þar er að finna metnaðarfulla áætlun sem er sett fram í kjölfar víðtæks samráðs um allt land, og með hliðsjón af áherslum ríkisstjórnarinnar um jöfn lífskjör og gott aðgengi að þjónustu um allt land. Vinnan við nýja áætlun hefur falið í sér mun víðtækari samráð en áður hefur verið á ýmsum samráðsvettvöngum allra landshlutasamtaka sveitarfélaga auk ríkisins og Byggðastofnunar. Ríkisstjórnin er með áherslu á byggðamál og markmið byggðamála að jafna aðgengi að þjónustu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Til þess eru margar leiðir. Bættar samgöngur, öflug grunnþjónusta, heilbrigðismál og stuðningur við atvinnugreinar sem bera uppi sjálfbært samfélag til framtíðar. Þarna getur hið opinbera verið leiðandi með flutning starfa og opinberra verkefna út á land. Þar má ekki sofna á verðinum og hið opinbera getur bætt sig í þessum efnum

Halla Signý Kristjánsdóttir

Alþingismaður

DEILA