Um helgina fór fram á Ísafirði gönguskíðanámskeið fyrir konur undir yfirskriftinni Bara ég og stelpurnar. Á námskeiðinu, sem hófst á fimmtudag og stóð fram á sunnudag, voru um 40 konur frá Reykjavík og Akureyri og gisti hópurinn saman á Hótel Horni. Kennarar á námskeiðinu voru Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, Stella Hjaltadóttir og Daníel Jakobsson. Námskeiðið er ætlað bæði þeim sem eru að stíga sín fyrstu spor í brautinni og þeim sem hafa reynslu af skíðagöngu.
Eina skilyrðið fyrir þátttöku á námskeiðinu var að elska snjó og hafa gaman af að leika sér. Meðal þess sem farið var yfir voru undirstöðuatriði íþróttarinnar, jafnframt því sem konurnar voru kynntar fyrir búnaðinum og snjónum. Þær fræddust um áburðarmál, orðaforða og tækniatriði. Síðan var farið í verklegar æfingar á gönguskíðasvæðinu á Seljalandsdal, með tveimur æfingum á dag, föstudag og laugardag og einni á sunnudag.
Ein aðalhvatamanneskja námskeiðsins er Bolvíkingurinn Hildur Kristín Einarsdóttir, sem búsett hefur verið í höfuðborginni um árabil og mætti hún með vinkonuhópinn. Hún ber námskeiðinu vel söguna: „Þetta var alveg frábært. Vel skipulagt hjá Völu, Danna og Stellu. Þarna var frábær hópur skemmtilegra kvenna samankominn, sem æfði mikið, hló meira og hafði gaman. Hressar, glaðar og flottar konur sem eru í hörku formi eftir helgina.“
Hildur segir það alveg frábært að koma á sínar fornu slóðir sem ferðamaður og gista nokkrar nætur á hótelinu í hópi góðra kvenna: „Ég er búin að geta þetta núna 2 ár i röð og mæli með þessu.“
Leikurinn verður endurtekinn um komandi helgi með öðru námskeiði og eru þá 30 konur skráðar til leiks, sem allar koma frá Reykjavík.