Um 400 manns sem fljúga í hverjum mánuði

Bíldudalur. Mynd úr safni. Ljósmyndari Mats Wibe Lund.

Jafnvel þó vegirnir á sunnanverðum Vestfjörðum séu margir hverjir óhemju lélegir og leiðin norður á Ísafjörð sé varla til að tala um ennþá, þá er alltaf bót í máli að Flugfélagið Ernir heldur uppi áætlunarflugi á Bíldudal. Ernir hóf að fljúga vestur í ársbyrjun 2007, svo félagið er því að sigla inn í tólfta árið fljúgandi vestur á firði. Flugfélagið flýgur þangað allt árið, einu sinni á dag og sex daga vikunnar, ekkert flug er á laugardögum. Þau hafa verið að prófa sig áfram með tvær ferðir á fimmtudögum, sem hefur svo gefist ágætlega.

Að sögn Ásgeirs Arnar Þorsteinssonar, sölu- og markaðsstjóra Arna, þá nýta um 400 manns sér flugið í hverjum mánuði og fer fjölgandi. „Þetta er mest megnis heimafólk og fólk að ferðast vinnu sinnar vegna,“ segir Ásgeir í samtali við BB. „Fyrirtæki á svæðinu nýta flugið einnig mjög vel og við finnum líka fyrir meiri áhuga ferðamanna á svæðinu og erum þess vegna að reyna að kynna svæðið betur fyrir ferðafólki. Til dæmis með því að opna nýja heimasíðu á ensku.“

Ásgeir segir að flugskilyrði séu ágæt á Bíldudal þó veðrið stríði þeim auðvitað stundum. Þrátt fyrir það hefur heilt yfir gengið mjög vel að halda áætlun og Ernir hefur getað sótt Bíldudal mjög vel í gegnum tíðina.  

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA