Ekkert lát er á skíðaiðkun Ísfirðinga og nágranna í dölunum tveimur. Framundan eru Andrésar andar leikarnir á Akureyri sem verða haldnir þar-næstu helgi. Blaðamaður bb rakst á afreksmenn framtíðar, fimm til sex ára skíðagarpa, sem æfðu í Tungudal undir leiðsögn skíðakennarans Birnu Jónasardóttur. Þetta var fjölmennur og föngulegur hópur og ekki laust við að blaðamaður fylltist bjarsýni á framtíðina þegar hann fylgdist með þessum kurteisu og öguðu íþróttamönnum.
Seinna lá leiðin á Seljalandsdal þar sem fjölmenni nutu útvistar á gönguskíðum í sól og blíðu. Færið var eins og best verður á kosið og veðrið lék við skíðamenn.
Enn rakst blaðamaður á skíðamenn sem æfðu fyrir Andrésar andar leikana. Þarna voru m.a mættir Eyþór Árnason og Grétar Smári Samúelsson. Rétt er að geta þess að Eyþór er afabarn skíðagarpans Elíasar Sveinssonar og Grétar afabarn Fylkis Ágústssonar sundkappa. Báðir æfa af miklu kappi fyrir leikana og hlakka mikið til fararinnar til Akureyrar.
Það er Skíðafélag Ísfirðinga sem heldur utan um þátttöku ísfirskra barna í Andrésar andar leikunum og eins og áður hefur komið fram í BB styrkir Fossavatnsgangan keppendur til fararinnar. Andrésar andar leikarnir og síðan Fossavatnsgangan marka lok skíðavertíðar Ísfirðinga enda hillir undir vor með blóm í haga.
Skíðaveturinn hefur verið einn sá besti í áratugi, byrjaði strax í nóvember og enn er nægur snjór í Dölunum tveimur. Fyrir utan rysjótta tíð á þorra hefur veður verið nokkuð stöðugt, með litlum umhleypingum og nægum snjó. Í dag, sunnudag er spáð hægum sunnan vindi með hitastigi við frostmark, sólarlaust en góðu skíðaveðri. BB hvetur alla sína lesendur til að halda til fjalla í Dölunum tveimur og njóta þess sem skíðasvæðin hafa upp á að bjóða.