Loðnu rekur á fjörur í Steingrímsfirði

Loðna sem rak á fjörur. Mynd: Hafdís Sturlaugsdóttir.

Mikið magn af dauðum fiski, sem liggur í fjöru, vekur jafnan athygli almennings. Oft heldur fólk að orsökin sé mannanna en stundum er fiskadauðinn hreinlega hluti af náttúrulegri hringrás lífsins. Á vefsíðu Náttúrustofu Vestfjarða segir frá því að nokkuð sé af loðnu sem hefur rekið á fjörur við Steingrímsfjörð. Stundum megi sjá hrogn líka, en það sé ekki jafn algengt. Hafdís Sturlaugsdóttir, landnýtingarráðunautur hjá Náttúrustofu Vestfjarða, segir í samtali við BB að þessi loðnureki sé árviss viðburður á þessum tíma árs. Hún segir jafnframt: „Eftir hrygningu drepst loðnan og rekur á land eða sekkur til botns. Ég veit ekki mikið um þá loðnu sem sekkur en hún er örugglega vel nýtt af þeim sem þar búa.“

Hafdís segir líka að sennilega megi finna loðnu víðar en í Steingrímsfirði og að til dæmis máfar og æðarfugl njóti góðs af rekanum. Æðarfuglinn sé þó hrifnari af hrognunum og eflaust sækja minkar og refir í loðnuna. Hér áður fyrr fóru bændur og söfnuðu saman loðnunni til að gefa fé sínu og eins og segir á heimasíðu Náttúrustofu þá má eflaust gera slíkt hið sama enn í dag.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA