Nú á tímum snjallvæðingar, þegar öll börn í grunnskólum eiga að hafa aðgang að spjaldtölvum og geta gert alls kyns kúnstir með þær, þá eru gamaldags, ljósrituð skólablöð sjaldséðir gestir. Það er heldur ekki á hverjum degi sem grunnskólabörn fara og finna heimildamenn í þeim tilgangi að safna sögum, sem helst eiga skylt við þjóðsögur og hafa margar hverjar aldrei ratað í bækur, heldur aðeins gengið mann fram af manni í munnmælum. Þetta gerðu engu að síður nemendur í 5. – 10. bekk grunnskóla Önundarfjarðar fyrir nokkrum vikum.
Í skólanum þeirra eru 11 nemendur í þessum bekkjum, sem oftast er kennt saman og börnin sáu að þau vantaði sárlega kósýhorn til að hjúfra sig niður í með bækur þegar hvert lestrarátakið á fætur öðru herjaði á þau. Ekki fékkst fjármagn til kaupa á grjónapúðum og öðru kósýdóti, svo börnin ákváðu að taka til sinna ráða og útbúa þjóðsagnahefti til að selja Önfirðingum og safna með því fjármagni fyrir púðum. Þau fóru á stokkana og tóku viðtöl við afa, ömmur og aðra tengda og fengu ellefu sögur af álagablettum í Önundarfirði, Dýrafirði og Skagafirði, en sex af þessum ellefu börnum eru ættuð að norðan.
Sumar af þessum sögnum hafa aldrei ratað í bækur heldur aðeins verið sagðar til varnaðar ábúendum á sveitabæjunum þar sem sögurnar eiga sér uppruna. Þar má nefna sögu af álagasteini á Hóli í Firði í Önundarfirði, slægja á Brekku á Ingjaldssandi sem ekki má slá ella hljóta skepnurnar verra af og sögur af mýrarbletti í Lambadal í Dýrafirði sem einnig er óslægur vegna álaga.
Verkefnið var mikil áskorun á ýmsan hátt fyrir börnin, bæði það að taka viðtöl gat verið mjög erfitt fyrir þau sem feimin eru og aðrir áttu í nokkru basli með að skrifa upp viðtölin, þar sem orðalag þeirra sem eldri eru getur verið torvelt fyrir þau yngri. Allt tókst þetta um síðir og bæði brottfluttir og búandi Önfirðingar hafa tekið vel í verkefnið og fengið heftin meðal annars send alla leið til Berlínar, Egilsstaða, Húsavíkur, Danmerkur og svo mætti lengi telja. Krakkarnir eru komin með hátt í hundrað þúsund krónur í ágóða og geta því vel unnt sér að velja þá hluti fyrir kósýhornið, sem hugur þeirra stendur helst til.
Sæbjörg
sabjorg@gmail.com