Í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum í Ísafjarðarbæ kemur fram að fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna hafi samþykkt framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, sem fram fara þann 26. maí næstkomandi.
Daníel Jakobsson, hótelstjóri á Ísafirði og núverandi oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, skipar efsta sæti listans og er bæjarstjóraefni hans. Konur eru í meirihluta frambjóðenda, en listann skipa ellefu konur og sjö karlar. Listinn samanstendur bæði af reynslumiklum einstaklingum í bæjarmálum sem og nýliðum, með reynslu úr ólíkum áttum samfélagsins. Á listanum eru fulltrúar úr öllum byggðakjörnum Ísafjarðarbæjar.
Sjálfstæðismenn voru áhugasamir um að skoða möguleika á sameiginlegum framboðslista með óháðum. Haldnir voru tveir fjölmennir, opnir bæjarmálafundir, þar sem sjá mátti mörg ný andlit, sem ekki höfðu tekið þátt í stjórnmálaflokksstarfi áður. Í kjölfar fundanna lýstu margir yfir áhuga á framboði og reyndust þeir flestir vilja kenna sig við sjálfstæðisstefnuna. Hópur áhugasamra sjálfstæðismanna var það stór, að horfið var frá hugmyndum um sameiginlegt framboð með óháðum.
Stjórn fulltrúaráðsins skipaði uppstillingarnefnd í framhaldi af opnu fundunum og var Steinþór Bjarni Kristjánsson kjörinn formaður hennar. Nefndin skilaði tillögu sinni að framboðslista á fundi fulltrúaráðsins, sem haldinn var á Ísafirði síðdegis í gær, en listinn var samþykktur einróma.
Daníel Jakobsson, sem vermir 1. sætið, segist vera stoltur af listanum. „Á honum er hæfileg blanda af konum og körlum, nýju fólki og reynslumeira, ungum sem og eldri. Nú tekur við vinna við að setja saman stefnu framboðsins.“ Daníel segir að það sem hljóti að enda ofarlega í stefnu flokksins, sé að koma Ísafjarðarbæ aftur til forystu á meðal vestfirskra sveitarfélaga. „Stuðningur við vestfirskt atvinnulíf og íbúa með hagsmunagæslu fyrir svæðið. Fiskeldi, samgöngur hvers konar og raforkumál eru einnig ofarlega á lista.“ Daníel heldur áfram og segir að tækifærin séu hér, „sú staðreynd að nú sé komið leyfi fyrir 10.000 tonna eldi í Dýrafirði gefur okkur færi til að sækja fram. Við þurfum einnig að sjá til þess að Ísafjarðardjúp verði opnað fyrir fiskeldi sem fyrst.“
Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ fyrir kjörtímabilið 2018-2022
1. Daníel Jakobsson (45), hótelstjóri og bæjarfulltrúi, Ísafirði.
2. Hafdís Gunnarsdóttir (37), forstöðumaður og varaþingmaður, Ísafirði.
3. Sif Huld Albertsdóttir (32), framkvæmdastjóri og varabæjarfulltrúi, Ísafirði.
4. Jónas Þór Birgisson (46), lyfsali, stundakennari og bæjarfulltrúi, Hnífsdal.
5. Steinunn Guðný Einarsdóttir (35), gæðastjóri, Flateyri.
6. Þóra Marý Arnórsdóttir (28), deildarstjóri málefna fatlaðra hjá Ísafj.bæ, Ísafirði.
7. Aðalsteinn Egill Traustason (32), framkvæmdastjóri, Suðureyri.
8. Hulda María Guðjónsdóttir (33), geislafræðingur, Ísafirði.
9. Högni Gunnar Pétursson (28), vélvirki, Ísafirði.
10. Guðfinna M.Hreiðarsdóttir (52), sagnfræðingur, Ísafirði.
11. Kristín Harpa Jónsdóttir (21), nemi, Ísafirði.
12. Gautur Ívar Halldórsson (35), framkvæmdastjóri, Ísafirði.
13. Arna Ýr Kristinsdóttir (36), leikskólakennari, Ísafirði.
14. Magðalena Jónasdóttir (20), starfsmaður í málefnum fatlaðra hjá Ísafj.bæ, Hnífdsal.
15. Pétur Albert Sigurðsson (41), múrari, Þingeyri.
16. Sturla Páll Sturluson (59), aðstoðaryfirtollvörður, Ísafirði.
17. Guðný Stefanía Stefánsdóttir (41), grunnskólakennari, Ísafirði.
18. Birna Lárusdóttir (52), upplýsingafulltrúi, Ísafirði.
-Margrét Lilja Vilmundardóttir
margretliljavilmundardottir@gmail.com