Gríðarlega mikilvægur vettvangur fyrir Vestfirðinga

Síðastliðinn þriðjudag lauk þriggja daga ráðstefnu Strandbúnaðar, sem haldin var í ár í annað sinn.

Eva Dögg Jóhannesdóttir, oddviti Tálknafjarðar, var einn fjölmargra Vestfirðinga, sem hélt erindi á ráðstefnunni. Hún segir að vel hafi til tekist en ráðstefnan hafi verið vel skipulögð, fræðandi og skemmtileg. Eva Dögg segir að fyrirlesarar frá Vestfjörðum hafi verið mjög áberandi, en þau sem héldu erindi voru Kristján Leósson, Þóra Dögg Jörundsdóttir, Jón Örn Pálsson, Pétur G. Markan, Neil Shiran Þórisson, Sigríður Gísladóttir, Stein Ove Tveiten og Víðir Ingþórsson.

Eva Dögg talar um að eftir að ráðstefnan hafði verið sett af Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi erindin byrjað, sem voru hvert öðru áhugaverðara. „Þar fór þó hæst þrumuræða Péturs G. Markan, sem maður heyrði ráðstefnugesti ræða alveg fram til ráðstefnuloka. Af því sem heyra mátti, hitti Pétur vel í mark hjá ráðstefnugestum. Fólk virtist skilja þreytu Vestfirðinga á þeirri stöðu sem upp er komin og í raun þá vanvirðingu sem hefur verið við líði í umræðunni um Vestfirði og Vestfirðinga.“ Eva heldur áfram og segir að í hugleiðingum Vilhjálms Jens Árnasonar, sem talaði fyrstur eftir ráðherra, hafi einnig verið settur tónn fyrir ráðstefnuna, sem mikið var við haft og lagði silfurlínu í gegnum þessa tvo daga. „Vilhjálmur talaði um gildin, virðingu og fagmennsku, sem síðan var vitnað í í nokkrum erindum sem á eftir komu.“

Fyrstu málstofur ráðstefnunnar fjölluðu um laxalús annars vegar og landeldi á laxi hins vegar. Eva Dögg var með erindi um laxalús, en það fjallaði um tíðni og þéttleika laxalúsar á villtum laxfiskum á sunnanverðum Vestfjörðum, en um það fjallar einmitt meistaraverkefni hennar við Háskólann á Hólum. „Í meistaraverkefninu mínu bar ég saman niðurstöður úr þeim rannsóknum sem farið hafa fram, við niðurstöður úr verkefninu mínu.“ Eva Dögg segir að öll erindin hafi verið fróðleg og mikill áhugi á efninu í salnum, svo miklar umræður sköpuðust. „Þetta var einstaklega skemmtileg málstofa og skemmtilegt að geta þess að á þessari málstofu voru þrír af fimm fyrirlesurum að vestan.“

Eva Dögg talar um að á öðrum degi ráðstefnunnar hafi málstofan „Uppskeruhátíð rannsókna“ staðið upp úr. „Það voru einstaklega fræðandi erindi þar og fyrir mig þá var síðasta erindið, frá Sigríði Guðmundsdóttur á Keldum, sem fjallaði um mikilvægi sjúkdómarannsókna, sérstaklega áhugavert og aðkallandi.“

Eva Dögg segir að ráðstefnur sem þessar séu gríðarlega mikilvægur vettvangur til að koma fólki úr eldisgeiranum og skildum greinum saman. „Þarna er hægt að nálgast tengiliði auðveldlega, taka í höndina á fólki og ræða hugmyndir og verkefni.“

-Margrét Lilja Vilmundardóttir

margretliljavilmundardottir@gmail.com

DEILA