Þeir sem hafa átt leið um miðbæ Ísafjarðar hafa kannski tekið eftir að bæst hefur í flóru veitingastaða á svæðinu.
Síðastliðinn sunnudag opnaði veitingastaðurinn Mamma Nína Pizzeria með pompi og prakt á Austurvegi 1, en staðurinn bíður upp á nýbakaðar pizzur, brauðstangir og salöt.
Í samtali við vertinn á staðnum, Guðmund Helgason, kemur fram að hann og bróðir hans, Sigurður Arnfjörð Helgason, hafi ákveðið að opna staðinn nýverið, eftir að húsnæðið datt eiginlega upp í hendurnar á þeim. Vert er að minnast á að þeir bræðir eru engir nýgræðingar í rekstri veitingastaða, en þeir eiga og reka einnig Edinborg Bistro.
„Við teljum að það sé mikill markaður fyrir pizzustað á Ísafirði, þ.e. stað sem einbeitir sér aðeins að pizzum.“ Guðmundur bætir við að viðtökurnar, þessa fyrstu daga, hafi farið fram úr björtustu vonum.
En hvaðan kemur nafnið Mamma Nína? „Við bræður ákváðum að gefa staðnum nafnið Mamma Nína eftir móður okkar, sem lést aðeins 46 ára gömul árið 1992.“ Guðmundur bætir við að vinsælasta pizzan þessa fyrstu daga sé einmitt Mamma Nína pizzan, sem var uppáhaldspizza móður þeirra.
-Margrét Lilja Vilmundardóttir
margretliljavilmundardottir@gmail.com