Það kannast margir við það að ætla út að borða með fjölskylduna, en reka sig á það að barnamatseðillinn inniheldur einungis mikið unnan og óhollan mat. Einarshúsið í Bolungarvík ætlar að bregðast við þessu, en í vor og sumar verður boðið upp á grænmetisfæði, ásamt hollum mat í bland við hefðbundin matseðil.
„Þegar hugmyndin kom upp að breyta matseðlinum datt mér strax í hug að hafa hann hollari en sá sem við vorum með í fyrra. Taka út þá rétti sem voru að seljast minna og skipta þeim út fyrir vegan rétti. Mér hefur alltaf fundist það synd að það sé ekki hægt að kíkja út með fjölskylduna og fá hollan og góðan mat hérna fyrir vestan. Ég borða sjálf mikið af grænmetisréttum heima og veit því hvað það er mikilvægt fyrir heilsu og sál að fá hollan og næringarríkan mat,“ segir Arna María Arnardóttur sem mun sjá um rekstur Einarshússins í sumar fyrir eigandann Benna sig.
„Þó svo að við séum að stíla á að maturinn verði vegan, þá er aðaltakmarkið að hafa hann hollan og næringarríkan. Matseðillinn hjá okkur mun vera einfaldur en rúllandi til þess að við getum boðið upp á meiri fjölbreytni og mismunandi rétti á hverjum degi. Þannig getum við til dæmis boðið upp á fleiri vegan-rétti en við gætum með fastan matseðil. Við ætlum því að vera dugleg að koma því á framfæri í netheiminn hvaða réttir verða hvern dag fyrir sig.“
Arna María segir einnig að reglulega muni grænmetis- og hollustuhlaðborð verða í boði á Einarshúsi og þau auglýst á Facebook síðu veitingastaðarins. Starfsfólkið hefur unnið hörðum höndum að því að hanna matseðilinn og prófa sig áfram í eldamennskunni og meðal þeirra rétta sem verða á boðstólum eru sætkartöflusúpa, karrýréttur með spergilkáli og kjúklingabaunum, tortillapizzur, fylltar paprikur og allskonar annað góðgeti. Fastagestir frá fyrra sumri geta þó gengið að hamborgara hússins vísum og einnig verður boðið upp á ferskan fisk eins og gert hefur verið undanfarin ár. Einarshús opnar laugardaginn 24. mars og verður opið alla daga og það verður spennandi að sjá hvernig Vestfirðingar taka á móti nýja og holla matseðlinum.
-Sæbjörg
sabjorg@gmail.com