Hálka og éljagangur er víðast hvar á Vestfjörðum en þæfingsfærð og skafrenningur er á Þröskuldum, Hálfdán og Mikladal. Þungfært og stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði og ófært og stórhríð á Klettshálsi og Kleifaheiði og beðið með mokstur samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Á Vestfjörðum er nú allhvöss norðaustanátt með snjókomu eða éljum, og má búast við erfiðum akstursskilyrðum, sérílagi á fjallvegum. Veðurspá dagsins kveður á um norðaustan 10-18 m/s og snjókomu, einkum á Vestfjörðum norðanverðum, með vægu frosti í fjórðungnum. Á morgun snýr í hreina norðanátt 8-13 m/s með éljum, en hægara verður og úrkomulítið síðdegis. Frost á bilinu 2 til 7 stig.