Grátlegt tap gegn Breiðablik á Jakanum

Vestri tók á móti Breiðablik í leik tvö í úrslitakeppni 1.deildarinnar í kvöld. Breiðablik hafði 1-0 forskot fyrir þennan leik, en það lið sem fyrr sigrar þjár viðureignir fer í úrslitaleiki um laust sæti í Dominos deildinni næsta haust.

Það var allt annað og ákveðnara lið sem mætti til leiks á Jakanum, heldur en mátti hverfa frá erfiðu tapi s.l. fimmtudagskvöld fyrir sunnan. Heimamenn voru greinilega ákveðnir að gefa allt sitt í að leggja gestina og jafna metin.

Frá byrjun tóku Vestramenn forustu með góðri vörn og sóknin fylgdi í kjölfarið. Staðan eftir fyrsta leikhluta 19-10 og þeir Ágúst og Ingimar heitir í sókninni.

Annar leikhluti byrjaði eins og sá fyrri hjá Vestra, vörnin hélt vel og boltinn gekk vel í sókninni. Voru heimamenn með sjö til tíu stiga forskot mest allan leikhlutann og þegar flautað var til hálfleiks var Vestri með þægilegt forskot 40-27. Vörnin virkaði vel og allir börðust um lausa bolta.

Seinni hálfleikur byrjaði af sama krafti hjá heimamönnum. Nökkvi, fyrirliði, setti þriggja stiga körfu og kom muninum í sextán stig 43-27. Þá tók að halla undan fæti hjá Vestra og vörnin svaf á verðinum. Blikar sóttu stíft og þegar um mínúta var eftir af þriðja leikhluta voru gestirnir búnir að jafna leikinn, 49-49, og ekkert að ganga upp hjá Vestra. Fór svo að Blikar unnu þennan leikhluta 25-11 og framundan mikil spenna fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Staðan 51-52.

Mikil barátta einkenndi fjórða leikhluta, en Vestri leiddi þó leikinn og náði að vera með Blika í aftursætinu fyrstu mínúturnar. Þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af leiknum voru heimamenn með 66-61 forskot og allt stefndi í sigur, en þá hrundi spilið og Blikar gengu á lagið. Þrír tapaðir boltar hjá Vestra og gestirnir refsuðu með auðveldum körfum. Fór svo að Vestri skoraði ekki stig síðustu þrjár mínúturnar og Blikar sett níu stig og hreinlega rændu þessum sigri.

Nú eru Vestramenn með bakið upp við vegg og verða að taka sigur gegn Breiðablik á útivelli n.k. fimmtudag eða 22.mars. Ef þeir tapa þeim leik er komið sumarfrí, ef þeir sigra er annar leikur á Jakanum mánudaginn 26.mars.

Bestu menn Vestra í kvöld voru þeir Ágúst Angantýsson með 27 stig, 14 fráköst. Ingimar Aron Baldursson með 18 stig, 5 fráköst og Nebosja Knezevic, með 13 stig, 13 fráköst og 6 stoðsendingar.

Hjá Breiðablik var Cristopher Woods með 22 stig og 15 fráköst. Árni Elmar Hrafnsson með 18 stig, 5 stoðsendingar og Sveinbjörn Jóhannesson með 13 stig og 5 fráköst.

-Gaui

DEILA