Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, segir í samtali við bb.is að niðurstaða Reykhólahrepps vegna veglagningar í Gufudalssveit sé mikið fagnaðarefni fyrir Vestfirðinga.
Fyrir helgi ákvað sveitarstjórn Reykhólahrepps að Vestfjarðavegur 60 í Gufudalssveit muni liggja um Teigsskóg. Tvær veglínur voru til skoðunar í breytingum hreppsins á aðalskipulagi, annars vegar veglína um Teigsskóg og hins vegar veglína sem liggur í jarðgöngum gegnum Hjallaháls og Ódrjúgsháls.
Vegir í Gufudalssveit eru komnir að niðurlotum og þá sér í lagi yfir hálsana tvo. Umsvif á sunnanverðum Vestfjörðum hafa aukist til muna á síðustu árum með tilkomu laxeldisins og vegirnir í Gufudalssveit eru komnir að niðurlotum.
Ásthildur segir létti að óvissunni hafi verið eytt og hún, rétt eins og aðrir Vestfirðingar, bindur miklar vonir við ferlið sem eftir verði ekki tafið og að framkvæmdir geti hafist sem fyrst.
-gunnar