Teigsskógur varð fyrir valinu

Utanverður Teigsskógur.

Hreppsnefnd Reykhólahrepps ákvað á fundi í dag að setja veglínu um Teigsskóg inn á aðalskipulag sveitarfélagsins. Tvær veglínur komu til greina, um Teigsskóg og veglína sem liggur í jarðgöngum í gegnum Hjallaháls og Ódrjúgsháls. Atkvæði féllu þannig að fjórir hreppsnefndarmenn greiddu atkvæði með tillögunni og einn á móti.

Hreppsnefndin telur ljóst að þó leið um Teigsskóg muni hafa umtalsverð neikvæð umhverfisáhrif muni vegurinn hafa jákvæð samfélagsáhrif og bæti samgöngur og auki umferðaröryggi meira en hin leiðin. Þar að auki sé verulegur munur á kostnaði verkefnanna eða um sex milljarðar króna.

Næsta skref í málinu er að skipulagsbreytingin er auglýst og þegar frestur til athugasemda er liðinn tekur skipulagsnefnd hreppsins afstöðu til athugasemda og umsagna og gengur frá endanlegu aðalskipulagi til lokasamþykktar í sveitarstjórn. Aðalskipulag tekur gildi þegar það hefur verið staðfest af Skipulagsstofnun. Þá fyrst getur Vegagerðin sótt um framkvæmdaleyfi vegna vegagerðar í Gufudalssveit.

Ekki er ólíklegt að dómsmál verði rekin vegna málsins enda óumdeilt að hreppsnefnd er að velja lakari kostinn með tilliti til umhverfisverndar.

DEILA